Snæfellskonur þurftu að játa sig sigraðar gegn Haukum á laugardag. Ljósm. úr safni/ sá.

Misstu af sigrinum í lokafjórðungnum

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn toppliði Hauka, 85-73, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á laugardag. Leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Haukar höfðu yfirhöndina í upphafi leiks og framan af fyrsta leikhluta. Snæfell náði með góðum spretti að minnka muninn í 14-12 eftir sjö mínútna leik. Haukar áttu hins vegar lokaorðið í upphafsfjórðungnum og leiddu með sjö stigum að honum loknum, 23-16. Það var allt annar bragur á leik Snæfellskvenna í öðrum leikhluta. Þær hertu mjög á varnarleiknum og gerðu Haukum mjög erfitt fyrir. Fyrir vikið náðu þær forystunni snemma í öðrum fjórðungi. Haukar komust yfir að nýju en það entist ekki lengi. Snæfell átti góðan endasprett í fyrri hálfleik og leiddi með fimm stigum í hléinu, 34-39.

Haukakonur voru heldur ákveðnari eftir hléið og kom sér hratt og örugglega inn í leikinn aftur. Þær komust yfir skömmu áður en þriði leikhluti var hálfnaður og eftir það var leikurinn í járnum. Snæfell fylgdi Haukum hvert fótmál næstu mínútur og komst yfir að nýju fyrir lokafjórðunginn, 55-57. Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi fjórða leikhluta en þá var eins og Haukakonur settu í fluggírinn. Þær náðu miklum spretti um miðjan fjórðunginn og komust tólf stigum yfir eins og hendi væri veifað, 72-60. Þær bættu enn við og höfðu 17 stiga forskot þegar þrjár mínútur voru eftir og leikurinn unninn. Snæfell náði aðeins að laga stöðuna í restina en þetta mikla áhlaup Hauka um miðjan lokafjórðunginn varð þeirra banabiti. Lokatölur urðu 85-73, Haukum í vil.

Kristen McCarthy var atkvæðamest í liði Snæfells með 32 stig, 17 fráköst og fimm stoðsendingar, stórleikur. Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði 13 stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir var með ellefu stig, fimm fráköst og sex stolna bolta.

Whitney Frazier var stigahæst í liði Hauka með 30 stig og tíu fráköst. Helena Sverrisdóttir setti upp myndarlega þrennu með 21 stig, 17 fráköst og tólf stoðsendingar, auk þess að stela boltanum sex sinnum. Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 15 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar en aðrar höfðu minna.

Eftir leikinn hefur Snæfell 18 stig í sjöunda sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Breiðabliki í sætinu fyrir ofan en átta stigum frá fjórða sætinu og þar með sæti í úrslitakeppninni þegar fjórir leikir eru eftir. Til að ná því sæti þurfa Snæfellskonur að sigra alla sína leiki og treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum í síðustu fjórum umferðunum. Næst leikur Snæfell á miðvikudaginn, 14. mars, þegar liðið mætir botnliði Njarðvíkur í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir