Jón Orri Kristjánsson fékk ekki sigur í kveðjuleiknum. Ljósm. úr safni/ jho.

Tap í kveðjuleik Jóns Orra

ÍA og FSu mættust í lokaumferð 1. deildar karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Áður en leikurinn hófst var Jón Orri Kristjánsson, leikmaður ÍA, heiðraður af áhorfendum og liðsfélögum sínum. Hann hafði gefið það út að leikurinn yrði hans síðasti á 19 ára farsælum körfuknattleiksferli.

Skagamenn voru fyrir leikinn á botni deilarinnar en FSu í sætinu fyrir ofan. Hvorugt lið hafði að nokkru að keppa, leikmenn áttu erfitt með að gíra sig upp í leikinn og bar hann nokkurn keim af því. Stigaskorið var mjög lágt en jafnræði var með liðunum framan af. Gestirnir frá Selfossi höfðu heldur yfirhöndina í fyrsta leikhluta og leiddu 13-17 að honum loknum. Skagamenn voru betri í öðrum fjórðungi og staðan var jöfn í hálfleik, 23-23.

Það var síðan í þriðja leikhluta sem gestirnir slitu sig frá ÍA og komust í þægilega forystu. Skagamenn náðu ekki að svara fyrir sig og FSu leiddi 48-34 fyrir lokafjórðunginn. Þar bættu juku þeir forskot sitt lítið eitt og sigruðu að lokum með 22 stiga mun, 43-65.

Björn Steinar Brynjólfsson, sem rétt eins og Jón Orri var að leika sinn síðasta leik á ferlinum, var stigahæstur í liði Skagamanna með ellefu stig og tólf fráköst að auki. Friðrik Hrafn Jóhannsson skoraði tíu stig og tók sex fráköst, Sindri Leví Ingason var með sjö stig og Jón Orri Kristjánsson skoraði sex stig og tók ellefu fráköst.

Í liði gestanna var Antowine Lamb atkvæðamestur með 18 stig og 15 fráköst, Hlynur Hreinsson skoraði 15 stig, Florijan Jovanov skoraði 12 stig og tók 14 fráköst og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson skoraði tíu stig.

Skagamenn ljúka tímabilinu án sigurs í botnsæti deildarinnar en geta þó huggað sig við að ekkert lið fellur úr 1. deildinni í ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir