Jón Orri Kristjánsson fékk ekki sigur í kveðjuleiknum. Ljósm. úr safni/ jho.

Jón Orri leggur skóna á hilluna

Miðherjinn Jón Orri Kristjánsson ætlar að láta leik sinn með ÍA gegn FSu annað kvöld verða hinn síðasta löngum og farsælum körfuknattleiksferli. Frá þessu er greint í tilkynningu á Facebook-síðu Körfuknattleiksfélags ÍA.

Jón Orri, sem verður 35 ára í apríl, hóf meistaraflokksferil sinn með ÍA fyrir 19 árum síðan, árið 1999 og lék með liði Skagamanna til ársins 2002. Þaðan lá leiðin í ÍR þar sem hann lék um tveggja ára skeið og síðan norður til Akureyrar. Þar lék Jón með Þór í fimm ár á samhliða því sem hann fetaði menntaveginn. Næst lá leiðin suður til Reykjavíkur þar sem Jón gekk í raðir KR og lék hann með Vesturbæjarliðinu í fimm ár einnig. Því næst tók við eitt ár með Stjörnunni frá Garðabæ áður en hann sneri aftur heim árið 2015. Hefur hann leikið með liði Skagamanna síðan þá.

Á löngum og farsælum ferli auðnaðist Jóni  tvisvar sinnum að verða Íslandsmeistari, tvisvar bikarmeistari, tvisvar úrvalsdeildarmeistari og tvisvar deildarmeistari í 1. deild. Þar að auki var Jón í tvígang valinn körfuknattleiksmaður Akraness, síðast árið 2017. „Alls staðar þar sem Jón hefur spilað er félögum hans þakklæti efst í huga. Hann er gríðarlegur leiðtogi innan sem utan vallar og gerir alla í kringum sig glaðari, í leik og starfi. Það verður því mikil söknuður af Jóni Orra hjá liðsmönnum ÍA,“ segir í tilkynningu körfuknattleiksfélagsins.

Kveðjuleikur Jóns verður sem fyrr segir viðureign ÍA og FSu í 1. deild karla. Leikurinn fer fram á Akranesi annað kvöld, fimmtudaginn 8. mars og hefst kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir