Aaron Parks, leikmaður Skallagríms. Ljósm. úr safni/ kgk.

Borgnesingar skutu Blika í kaf

Skallagrímur bar sigurorð af Breiðabliki, 111-123, í 1. deild karla í körfuknattleik á mánudagskvöld. Leikið var í Smáranum í Kópavogi.

Leikurinn fór fjörlega af stað og mikið jafnræði var með liðunum. Blikar náðu heldur yfirhöndinni seint í fyrsta leikhluta en Skallagrímsmenn fylgdu fast á hæla þeirra. Staðan eftir fyrstu tíu mínúturnar var 32-27 fyrir Breiðabliki. Heimamenn héldu forskoti sínu framan af öðrum leikhluta. Skallagrímur tók góða rispu undir lok fyrri hálfleiks og komst yfir áður en hálfleiksflautan gall, 58-59.

Borgnesingar mættu mjög ákveðnir til síðari hálfleiks og Blikar máttu hafa sig alla við að missa Skallagrím ekki of langt fram úr sér. Um miðjan þriðja leikhluta komst Skallagrímur ellefu stigum yfir en Blikar náðu að minnka muninn í átta stig fyrir lokafjórðunginn, 82-90. Það var síðan í fjórða leikhluta sem Skallagrímsmenn stungu af. Þeir settu fimm þriggja stiga skot í röð og komust í 86-105 áður en tvær mínútur voru liðnar af lokafjórðungnum. Lagði þessi skotsýning grunninn að sigri Skallagríms. Heimamenn náðu aldrei að svara almennilega fyrir sig. Mest leiddi Skallagrímur með 23 stigum seint í leiknum. Blikar náðu aðeins að laga stöðuna það sem eftir lifði en að lokum fór svo að Skallagrímur sigraði með 123 stigum gegn 111.

Aaron Parks var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 29 stig, sjö fráköst og níu stoðsendingar. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var með 21 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar, Davíð Guðmundsson skoraði 18 stig, Darrell Flake 15, Kristófer Gíslason 13 og Kristján Örn Ómarsson var með tólf stig og átta fráköst.

Sveinbjörn Jóhannesson var stigahæstur Blika með 21 stig og sjö fráköst, Jeremy Herbert Smith skoraði 19 stig, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar, Erlendur Ágúst Sigfússon 19 stig og sex fráköst, Árni Elmar Hrafnsson 18 stig og ellefu stoðsendingar, Christopher Woods ellefu stig og tíu fráköst og Snorri Vignisson ellefu stig einnig.

Skallagrímur hefur tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Liðið hefur 40 stig á toppi deildarinnar, sex stigum meira en næsta lið. Lokaleikur vetrarins fer fram á föstudaginn, 9. mars þegar Skallagrímur tekur á móti Vestra í Borgarnesi. Að þeim leik loknum munu Borgnesingar fá deildarmeistarabikarinn afhentan.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira