Andrea Björt Ólafsdóttir átti góðan leik í stórsigrinum gegn Breiðabliki. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell valtaði yfir Breiðablik

Snæfell vann stórsigur á Breiðabliki, 44-79, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna á laugardag. Viðureign liðanna fór fram í Kópavogi.

Leikurinn fór rólega af stað og jafnræði var með liðunum í upphafi. Snæfell leiddi með einu stigi, 4-5, skömmu áður en fyrsti leikhluti var hálfnaður. En þá skildu leiðir og Snæfellskonur stungu af. Þær skoruðu 19 stig gegn aðeins tveimur það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og komust 18 stigum yfir, 6-24. Snæfell jók forskot sitt lítið eitt í öðrum fjórðungi og leiddi með 23 stigum í hléinu, 19-42.

Forysta Snæfellskvenna hélst meira og minna óbreytt allan þriðja leikhlutann. Þær örugglega fyrir lokafjórðunginn, 34-56 og aðeins forsmatriði að klára leikinn. Síðustu tíu mínúturnar juku þær forskotið enn frekar og unnu að lokum stórsigur, 44-79.

Kristen McCarthy skoraði 28 stig, tók ellefu fráköst og stal þremur boltum. Andrea Björt Ólafsdóttir var með tólf stig, fimm fráköst og þrjá stolna bolta og Berglind Gunnarsdóttir var með tíu stig og ellefu fráköst.

Í liði Breiðabliks var Ísabella Ósk Sigurðardóttir með 16 stig, tólf fráköst og fjóra stolna bolta og Whitney Kiera Knight skoraði 13 stig, tók tíu fráköst og stal boltanum þrisvar.

Snæfell situr eftir leikinn í fimmta sæti deildarinnar með 18 stig, fjórum stigum á eftir Stjörnunni í sætinu fyrir ofan en með jafnmörg stig og Skallagrímur og Breiðablik í sætunum fyrir neðan. Næst leikur Snæfell á miðvikudaginn, 28. febrúar, þegar liðið heimsækir Keflavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir