Aaron Parks, leikmaður Skallagríms. Ljósm. úr safni/ kgk.

Skallagrímur vann Gnúpverja naumlega

Skallagrímur vann sigur á Gnúpverjum, 95-96, í miklum spennuleik í 1. deild karla í körfuknattleik. Leikið var í Fagralundi í gærdag.

Gnúpverjar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 9-0 áður en Borgnesingar komust á blað. Skallagrímsmenn voru ekki lengi koma sér upp að hlið gestanna eftir að þeir skoruðu fyrstu stigin sín. Seint í upphafsfjórðungnum höfðu þeir jafnað metin í 18-18 og komust síðan yfir áður en leikhlutinn var úti, 25-28. Gnúpverjar náðu forystunni í upphafi annars leikhluta en Skallagrímsmenn hrifsuðu hana til sín aftur skömmu síðar. Að nýju komust heimamenn yfir og leiddu allt til loka fyrri hálfleiks, 52-46.

Skallagrímsmenn komu ákveðnir til leiks eftir hléið. Þeir tóku forystuna snemma í þriðja leikhluta og höfðu yfirhöndina í leiknum. Að loknum þriðja leikhluta hafði Skallagrímur níu stiga forystu, 67-76. En Gnúpverjar voru ekki á því að leggja árar í bát. Þeir vörðu fjórða leikhluta í að kroppa hvert stigið af fætur öðru af forskoti Skallagríms. Þegar fjórar mínútur lifðu leiks munaði aðeins fjórum stigum á liðunum. Gnúpverjar komust yfir með tæpa eina og hálfa mínútu á klukkunni en Skallagrímsmenn svöruðu í sömu mynt. Borgnesingar gerðu engin mistök á lokamínútunni og sigldu heim eins stigs sigri, 95-96.

Aaron Parks átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 46 stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var með 20 stig, 13 fráköst og fimm stoðsendingar og þeir Kristófer Gíslason og Davíð Guðmundsson skoruðu ellefu stig hvor.

Everage Lee Richardsson dró vagninn í liði Gnúpverja. Hann átti stórleik, skoraði 44 stig, tók ellefu fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal boltanum sex sinnum. Gabríel Sindri Möller skoraði 24 stig en aðrir höfðu minna.

Skallagrímur styrkti með sigrinum stöðu sína á toppi deildarinnar. Borgnesingar hafa 36 stig í fyrsta sæti og hafa sex stiga forystu á næstu lið. Næsti leikur Skallagríms er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli fimmtudaginn 1. mars. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir