Góður leikur Carmen Tyson-Thomas dugði Skallagrímskonum skammt gegn sterku liði Hauka. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Skallagrímskonur lágu gegn Haukum

Skallagrímskonur máttu játa sig sigraðar á heimavelli gegn sterku liði Hauka, 66-80, þegar liðin mættust í Domino‘s deildinni í gærkvöldi.

Eftir hálf brösulega byrjun náðu Skallagrímskonur að minnka muninn í eitt stig eftir miðjan upphafsfjórðunginn, 10-11. Skallagrímur komst síðan yfir seint í leikhlutanum en Haukar jöfnuðu í 17-17 áður en leikhlutinn var úti. Gestirnir komust síðan yfir snemma í öðrum leikhluta og héldu forystunni allt til hálfleiks. Staðan í hléinu var 33-37, Haukum í vil.

Skallagrímsliðið náði sér ekki á strik í þriðja leikhluta og skoraði aðeins tíu stig allan fjórðunginn. Á meðan sigldu Haukar lengra fram úr og þegar leikhlutinn var úti leiddu gestirnir með 21 stigi, 43-64. Skallagrímskonur komu aðeins til baka í lokafjórðungnum en náðu aldrei að gera neina alvöru atlögu að forskoti gestanna. Þegar lokaflautan gall höfðu þær minnkað muninn í 14 stig en nær komust þær ekki. Haukar sigruðu, 66-80.

Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest í liði Skallagríms með 30 stig, ellefu fráköst og fimm stolna bolta. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 13 stig, átta fráköst, fimm stoðsendingar og fjögur varin skot en aðrar náðu sér ekki á strik.

Helena Sverrisdóttir skoraði 21 stig fyrir Hauka og tók tíu fráköst. Þóra Kristín Jónsdóttir var með 15 stig og sex fráköst og Whitney Michelle Frazier var með tíu stig, 13 fráköst og fimm stoðsendingar.

Skallagrímur situr í sjötta sæti deildarinnar með 18 stig, jafn mörg og Snæfell í sætinu fyrir ofan og Breiðablik í sætinu fyrir neðan, en fjórum stigum frá fjórða sætinu sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni. Næst leikur Skallagrímur á miðvikudaginn, 28. febrúar, þegar liðið heimsækir botnlið Njarðvíkur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir