Christian Covile átti stórleik í sigri Snæfells. Ljósm. úr safni/ kgk.

Góður lokasprettur skilaði Snæfelli sigri

Snæfell vann góðan sigur á Hamri, 101-94, eftir jafnan og spennandi leik í Stykkishólmi á föstudagskvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og gestirnir úr Hveragerði leiddu með tveimur stigum að honum loknum, 16-18. Snæfell jafnaði snemma í öðrum leikhluta og komst síðan yfir skömmu síðar, 24-23. Næstu stig voru Snæfells en eftir það náðu gestirnir forystunni að nýju og leiddu með sjö stigum í hléinu, 37-44.

Framan af þriðja leikhluta var Hamarsliðið sterkara. Í kringum miðjan leikhlutann höfðu þeir tíu stiga forskot en Snæfell átti góðan lokasprett. Á tveimur síðustu mínútunum tókst þeim að gera gott forskot gestanna að engu og minnka muninn í þrjú stig fyrir lokafjórðunginn, 71-74. Gestirnir skoruðu fyrstu stigin í fjórða leikhluta áður en Snæfell minnkaði muninn í tvö stig og síðan eitt og leikurinn var í járnum eftir það. Liðin fylgdust að og staðan var jöfn, 88-88 þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Snæfell komst yfir og með góðri rispu náðu þeir átta stiga forskoti, 96-88 þegar rúm mínúta var eftir. Hamarsmenn höfðu því ekki um margt annað að velja en að senda Snæfellinga á vítalínuna og stoppa klukkuna. Eftir tvær ferðir á vítalínuna settu gestirnir þriggja stiga skot en Snæfell svaraði í sömu mynt og gerðu endanlega út um sigurvonir gestanna. Hamarsmenn skoruðu síðustu körfu leiksins en lokatölur urðu 101-94, Snæfelli í vil.

Christian Covile átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 36 stig, reif niður 18 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Geir Elías Úlfur Helgason skoraði 17 stig, Viktor Marinó Alexandersson skoraði 16 stig og gaf fimm stoðsendingar, Nökkvi Már Nökkvason var með 14 stig og Sveinn Arnar Davíðsson tíu stig og sex fráköst.

Larry Thomas var atkvæðamestur í liði gestanna með 26 stig og fimm fráköst. Julian Nelson skoraði 18 stig og tók sjö fráköst, Jón Arnór Sverrisson tólf stig og Þorgeir Freyr Gíslason var með tólf stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar.

Með sigrinum styrkti Snæfell stöðu sína í baráttunni um fimmta sætið og þar með keppnisrétt í úrslitakeppninni í vor. Snæfell er í fimmta sætinu með 22 stig og sex stiga forskot á Fjölni í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Hamri í sætinu fyrir ofan.

Næst leikur Snæfell á sunnudaginn, 25. febrúar, þegar liðið tekur á móti ÍA í Vesturlandsslag umferðarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir