Snæfell vann mikilvægan sigur á Fjölni

Snæfell vann góðan útisigur á Fjölni, 79-82, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudag.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en eftir því sem leið á upphafsfjórðunginn náðu heimamenn yfirhöndinni. Fjölnir náði mest ellefu stiga forskoti seint í fyrsta leikhluta. Þá tók Snæfell smá rispu og minnkaði muninn í sex stig áður en flautan gall, 27-21. Fjölnir hafði yfirhöndina framan af öðrum leikhluta en Snæfell fór að sækja í sig veðrið eftir því sem hálfleikurinn nálgaðist. Hólmarar jöfnuðu metin í 38-38 seint í leikhlutanum en heimamenn leiddu með tveimur stigum í hléinu, 44-42.

Snæfell komst yfir snemma í síðari hálfleik og eftir það var mikið jafnræði með liðunum. Fjölnir jafnaði seint í þriðja leikhluta en Snæfell átti lokaorðið og hafði fimm stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 61-66. Heimamenn minnkuðu muninn í tvö stig snema í fjórða leikhluta en Snæfell stóð áhlaupið af sér og komst fimm stigum yfir. Fjölnir minnkaði muninn í þrjú stig skömmu síðar en Snæfell svaraði og náði sex stiga forskoti. Heimamenn gerðu lokatilraun til að fá eitthvað fyrir sinn snúð en komust ekki nær en sem nam þremur stigum. Lokatölur urðu 79-82, Snæfelli í vil.

Christian Covile átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 38 stig og tók 13 fráköst. Viktor Marinó Alexandersson skoraði 13 stig, Geir Elías Úlfur Helgason var með ellefu og Nökkvi Már Nökkvason skoraði tíu stig og tók fimm fráköst.

Samuel Prescott jr. skoraði 44 stig fyrir Fjölni og tók tíu fráköst. Næstur honum kom Andrés Kristleifsson með tólf stig og sex fráköst.

Með sigrinum styrkti Snæfell stöðu sína í baráttunni um fimmta sæti deildarinnar og þar með sæti í úrslitakeppninni. Hólmarar hafa 20 stig í fimmta sætinu og fjögurra stiga forskot á Fjölni í sætinu fyrir neðan. Næst leikur Snæfell á föstudag, 16. febrúar, þegar liðið tekur á móti Hamri í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir