Kristófer Gíslason var í miklu stuði í Hveragerði, skoraði 34 stig í sigri Skallagríms á Hamri. Ljósm. Skallagrímur.

Gerðu út um leikinn í lokafjórðungnum

Skallagrímur sigraði Hamar, 100-111 þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudag. Leikið var í Hveragerði.

Borgnesingar mættu mjög ákveðnir til leiks og leiddu 9-17 eftir miðjan fyrsta leikhluta. Hamarsmenn komu aðeins til baka undir lok leikhlutans en Skallagrímur hafði sex stiga forskot að honum loknum, 16-22. Heimamenn fundu taktinn í öðrum leikhluta og jöfnuðu í 30-30 þegar hann var hálfnaður. Skallagrímur komst yfir að nýju en heimamenn tóku forystuna undir lok fyrri hálfleiks og leiddu með sex stigum í hléinu, 43-37.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Hamar leiddi með nokkrum stigum en Skallagrímsmenn fylgdu þeim eins og skugginn. Skallagrímur komst yfir eftir miðjan þriðja leikhluta en Hamar jafnaði metin skömmu síðar. Borgnesingar áttu góða rispu í blálok leikhlutans sem skilaði fimm stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 63-68. Heimamenn virkuðu andlausir í fjórða leikhluta og Skallagrímsmenn gengu á lagið og gerðu út um leikinn. Þegar fjórar mínútur lifðu leiks voru Borgnesingar komnir 17 stigum yfir og ljóst í hvað stefndi. Fór svo að lokum að Skallagrímur vann ellefu stiga sigur, 100-111.

Kristófer Gíslason átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 34 stig og tók sjö fráköst. Aaron Parks skoraði 24 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar, reynsluboltinn Darrell Flake var með 20 stig og sjö fráköst og Bjarni Guðmann Jónsson var með tíu stig og sex fráköst. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var hársbreidd frá því að setja upp þrennu með níu stig, þrettán fráköst og tólf stoðsendingar.

Julian Nelson var stigahæstur í liði heimamanna með 25 stig, Larry Thomas skoraði 18 stig og tók fimm fráköst, Smári Hrafnsson skoraði 13 stig , Dovydas Strasunskas ellefu stig og sex fráköst og Þorgeir Freyr Gíslason ellefu stig sömuleiðis.

Skallagrímur hefur 32 stig á toppi deildarinnar, fjórum stigum meira en Breiðablik og Vestri í sætunum fyrir neðan. Næst leikur Skallagrímur á laugardaginn, 17. febrúar, þegar liðið mætir nágrönnum sínum í ÍA. Sá leikur fer fram á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir