Ljósm. úr safni.

Snæfellskonur stjórnuðu ferðinni

Snæfell vann öruggan sigur á Stjörnunni, 83-64, í 19. umferð Domino‘s deildar kvenna kvenna á laugardag. Leikið var í Stykkishólmi og áttu heimakonur afbragðsgóðan leik.

Snæfell byrjaði af miklum krafti en gestirnir virtust áhugalausir í upphafi leiks. Snæfellskonur leiddu 13-10 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður og þá settu þær í fluggírinn. Næstu mínúturnar skoruðu þær 16 stig gegn tveimur og leiddu 29-12 eftir upphafsfjórðunginn. Stjarnan kom aðeins til baka snemma í öðrum leikhluta og minnkaði muninn í níu stig. Þá náði Snæfellsliðið góðum leikkafla og hafði 16 stiga forskot í hléinu, 47-31.

Snæfell byrjaði síðari hálfleikinn vel og náði 21 stigs forskoti snemma í þriðja leikhluta. Stjarnan náði aðeins að klóra í bakkann en ekkert meira en það og Snæfell hafði gott forskot, 65-50, fyrir lokafjórðunginn. Gestirnir fundu sig engan veginn í lokafjórðungnum og voru aldrei líklegir til að hleypa spennu í leikinn. Snæfellskonur léku aftur á móti afar vel og sigur þeirra var aldrei í hættu. Að lokum sigruðu þær með 19 stiga mun, 83-64.

Kristen McCarthy átti stórleik á báðum endum vallarins. Hún skoraði 28 stig, reif niður 16 fráköst, gaf átta stoðsendingar og var með átta stolna bolta. Berglind Gunnarsdóttir var með 14 stig og Andrea Björt Ólafsdóttir skoraði tíu og tók sjö fráköst.

Danielle Rodriguez var atkvæðamest í liði Stjörnunnar, skoraði 31 stig og reif niður 19 fráköst. Bríet Sif Hinriksdóttir kom henni næst með tíu stig.

Eftir leikinn er Snæfell í fimmta sæti deildarinnar og eygir enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni í vor. Liðið hefur 16 stig, rétt eins og Skallagrímur og Breiðablik í sætunum fyrir neðan en er sex stigum á eftir Stjörnunni í fjórða sæti. Næst leikur Snæfell sunnudaginn 18. september þegar liðið mætir Val í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira