Kristen McCarthy og félagar hennar í Snæfelli áttu ekki góðan dag á móti Keflavík sl. laugardag. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell stigalaust í fjórða leikhluta

Keppni í Domino‘s deild kvenna hófst að nýju eftir jólafrí síðastliðinn laugardag. Í Stykkishólmi tóku Snæfellskonur á móti Keflavík. Leikurinn var mjög einkennilegur, Snæfell leiddi með tíu stigum í hléinu en afleitur síðari hálfleikur varð til þess að liðið varð á endanum að sætta sig við stórt, 53-80.

Báðum liðum gekk hálf illa að fóta sig í blábyrjun leiksins. Keflavík leiddi 4-11 um miðjan fyrsta leikhluta áður en Snæfell sneri taflinu sér í vil og hafði fjögurra stiga forystu að leikhlutanum loknum, 19-15. Snæfellskonur voru mun ákveðnari í öðrum leikhluta og stjórnuðu ferðinni í leiknum. Á meðan var Keflavíkurliðið var mistækara og fann ekki taktinn almennilega. Snæfell jók því forskot sitt lítið eitt áður en flautað var til hálfleiks og leiddi með tíu stigum í hléinu, 41-31.

En það eftir hlé sem leikurinn snerist á punktinum. Keflavíkurkonur komu mun ákveðnari til síðari hálfleiks og náðu að jafna í 44-44 um miðjan þriðja leikhluta. Á sama tíma gekk hvorki né rak hjá Snæfelli. Keflavíkurliðið var áfram sterkara, skoraði 29 stig í leikhlutanum gegn aðeins ellefu stigum Snæfells og hafði sjö stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 53-60. Í fjórða og síðasta leikhluta hrundi leikur Snæfells síðan algerlega og liðið skoraði ekki eitt einasta stig allan fjórðunginn, þrátt fyrir 16 tilraunir. Sjálfstraust liðsins hvarf endanlega fyrir vikið og gestirnir frá Keflavík gátu vaðið uppi eins og þeim sýndist til leiksloka. Lokatölur urðu 53-80, Keflavík í vil.

Kristen McCarthy var eini leikmaður Snæfells sem komst í tveggja stafa tölu á stigatöflunni. Hún skoraði 23 stig og tók tólf fráköst að auki. Næst henni kom Rebekka Rán Karlsdóttir með níu stig.

Brittany Dinkins var atkvæðamest í liði Keflavíkur með 27 stig, ellefu stoðsendingar og sjö fráköst og Erna Hákonardóttir skoraði 14 stig.

Þegar öll lið hafa leikið 15 leiki situr Snæfell í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar með tíu stig, fjórum stigum á eftir Skallagrími í sætinu fyrir ofan. Þessi tvö lið mætast einmitt í Vesturlandsslag í næsta deildarleik, miðvikudaginn 17. janúar. Sá leikur fer fram í Borgarnesi. Í millitíðinni mætast Snæfell og Keflavík hins vegar aftur, í undanúrslitum bikarsins á fimmtudaginn, 11. janúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira