Loftfimleikar. Viktor Marinó Alexandersson fer hér fimlega Sindra Leví Ingasyni, leikmanni ÍA. Ljósm. jho.

Snæfell sigraði í kaflaskiptum Vesturlandsslag

ÍA tók á móti Snæfelli í Vesturlandsslag 1. deildar karla í körfuknattleik í gær, sunnudaginn 7. janúar. Leikurinn var kaflaskiptur mjög, Skagamenn heilt yfir sterkari í fyrri hálfleik og leiddu í hléinu. Snæfell var hins vegar sterkara í síðari hálfleik og vann að lokum með 103 stigum gegn 85.

Snæfell hafði heldur yfirhöndina á upphafsmínútum leiksins og var fjórum stigum yfir um miðjan fyrsta leikhluta, 10-14. Þá tóku Skagamenn stjórn leiksins í sínar hendur og komust átta stigum yfir áður en upphafsfjórðungurinn var úti, 27-19. Snæfell minnkaði muninn í þrjú stig snemma í öðrum leikhluta áður en Skagamenn tóku við sér að nýju. Þeir einn af sínum betri leikköflum í allan vetur í fyrri hálfleik í gær, léku af yfirvegun og skynsemi og stóðu sína plikt í vörninni. Þeir náðu þægilegri forystu á nýjan leik og héldu Snæfelli í hæfilegri fjarlægð út fyrri hálfleik. Skagamenn leiddu með tíu stigum í hléinu, 45-35.

En það voru Snæfellingar sem áttu þriðja leikhlutann með húð og hári. Þeir jöfnuðu metin snemma í síðari hálfleik og eftir það fylgdust liðin að. Með góðum kafla undir lok þriðja leikhluta náðu Hólmarar ellefu stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 61-72. Snæfell hafði þegar þarna var komið við sögu ágætis tök á leiknum og lét forystuna aldrei af hendi. Snæfellingar juku forskotið hægt og bítandi síðustu mínútur leiksins og höfðu að lokum 18 stiga sigur, 85-103.

Þeir Jón Frímannsson og Marcus Dewberry voru stigahæstir í liði Skagamanna með 19 stig hvor. Jón tók sjö fráköst að auki og Marcus gaf fimm stoðsendingar. Sigurður Rúnar Sigurðsson skoraði 15 stig og tók sjö fráköst og Björn Steinar Brynjólfsson var með 13 stig og fimm fráköst.

Í liði Snæfells var Christian Covile atkvæðamestur með 30 stig og tíu fráköst. Viktor Marinó Alexandersson var með 18 stig, Jón Páll Gunnarsson 14 stig og sjö fráköst og Geir Elías Úlfur Helgason skoraði tólf stig.

Staða liðanna í deildinni er þannig að Skagamenn sitja á botninum án stiga, tveimur stigum á eftir FSu í sætinu fyrir ofan en eiga tvo leiki til góða á sunnanmenn. Snæfell er aftur á móti í þriðja sæti með 18 stig, tveimur stigum á eftir Breiðabliki í sætinu fyrir ofan en með jafn mörg stig og næstu tvö lið fyrir neðan.

Bæði lið leika næst mánudaginn 15. janúar næstkomandi. Skagamenn mæta Breiðabliki á útivelli en Snæfell mætir Skallagrími í öðrum Vesturlandsslag í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira