Carmen Tyson-Thomas og liðsfélagar hennar í Snæfelli gerðu góða ferð til Njarðvíkur. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Kláruðu leikinn í lokafjórðungnum

Skallagrímur vann góðan útisigur á Njarðvík í fyrsta leik liðsins eftir jólafrí síðastliðinn laugardag. Eftir jafnan leik framan af kláraði Skallagrímur leikinn í fjórða leikhluta og sigraði, 61-76.

Jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum. Gestirnir skoruðu fyrstu stigin en Skallagrímur jafnaði í 6-6 og eftir það fylgdust liðin að. Undir lok leikhlutans náðu Skallagrímskonur síðan smá rispu og leiddu með fjórum stigum að fyrsta fjórðungi loknum, 11-15. Njarðvíkurliðið var heldur ákveðnara í upphafi annars leikhluta og náði forystunni um hann miðjan, 20-19. En heimakonur leiddu aðeins örstutta stund, því Skallagrímur lauk fyrri hálfleik af krafti og hafði sjö stiga forskot í hléinu, 29-36.

Njarðvíkurliðið kom heldur ákveðnara til síðari hálfleiks og minnkaði muninn snarlega í tvö stig og fylgdi Skallagrími eins og skugginn næstu mínúturnar þar á eftir. En enn luku Skallagrímskonur leikhluta af krafti og með því tryggðu þær sér sex stiga forskot fyrir lokafjórðunginn,46-52. Það var þá sem Skallagrímur tók öll völd á vellinum og náði að slíta sig frá heimaliðinu, sem átti mjög erfitt uppdráttar síðustu mínúturnar. Fór svo að lokum að Skallagrímur sigraði með 15 stigum, 61-76.

Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest í liði Skallagríms með 25 stig, tólf fráköst og fimm stoðsendingar. Ziomora Esket Morrison kom henni næst 18 stig og ellefu fráköst.

Í liði Njarðvíkur var Shalonda Winton algerlega sér á parti með 34 stig og 15 fráköst en aðrar höfðu minna.

Skallagrímur situr í sjötta sæti deildarinnar með 14 stig eftir 15 leiki, tveimur stigum á eftir Breiðabliki í sætinu fyrir ofan og jafn mörgum stigum á undan Snæfelli í sætinu fyrir neðan. Vesturlandsliðin tvö mætast einmitt í Borgarnesi í næstu umferð. Sá leikur fer fram miðvikudaginn 17. janúar næstkomandi. Fyrst leikur Skallagrímur hins vegar aftur gegn Njarðvík, en í undanúrslitum bikarsins. Bikarleikurinn fer fram fimmtudaginn 11. janúar í Laugardalshöll.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira