Steinunn Einarsdóttir bregður á leik við pýramídana í Egyptalandi.

Steinunn Einarsdóttir heimsflakkari tekin tali

Fyrir rétt um ári tók Steinunn Einarsdóttir, ung kona úr Borgarfirði, ákvörðun um að hún væri komin með nóg af kuldanum og skammdeginu á Íslandi. Á þessum tíma vann hún í fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og var nýbúin að fá útborgað. Steinunn ákvað að nú skyldi hún finna ódýrt flug til útlanda og taka sér frí. Fór hún til Ísraels ásamt vinkonu sinni í þrjár vikur í desember fyrir ári og er óhætt að segja að þessi ferð hafi breytt miklu fyrir hana. Blaðamaður Skessuhorns hafði samband við Steinunni, sem nú er stödd í Ísrael á ný eftir að hafa ferðast mjög víða um heiminn síðasta árið. Hér er brot af ferðasögu hennar.

Flutti á unglingsárum í Borgarfjörðinn
Steinunn er fædd í Vestmannaeyjum en flutti með foreldrum sínum að Sólbyrgi í Borgarfirði á unglingsárum og lauk grunnskólagöngu í Kleppjárnsreykjaskóla. Eftir ferðalagið til Ísrael má segja að ekki hafi verið aftur snúið fyrir Steinunni. Hún var komin með heimsborgarabakteríuna og langaði lítið að koma aftur heim til Íslands. „Eitt kvöldið þegar við vorum í Ísrael langaði okkur að kynnast skemmtanalífinu í Tel Aviv en vissum ekki hvernig við ættum að bera okkur að. Við heyrðum af svokölluðu barrölti þar sem fylgdarmaður frá hosteli í borginni fer með ferðamenn saman í hóp að skoða skemmtanalífið og við ákváðum að skrá okkur. Fylgdarmaðurinn útskýrði fyrir mér hvernig hann var að vinna á hostelinu gegn því að hann fengi að búa þar frítt,“ segir Steinunn. „Um leið og ég kom heim til Íslands aftur fann ég hvernig skammdegið heima hefur slæm áhrif á mig og mig langaði að fara út aftur. Ég setti mig í samband við strákinn frá hostelinu og hann hjálpaði mér að fá vinnu þar. Ég fór því fljótlega aftur út til Ísraels og var þar í einn mánuð að vinna á hostelinu í Tel Aviv.“

Steinunn segir nánar frá ferðalögum sínum í Jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir