Vigfús Vigfússon, húsasmiður í Ólafsvík.

„Hef aldrei gert annað en að smíða síðan ég var tólf ára gamall“

„Ég er fæddur á Hellissandi árið 1924 og uppalinn þar. Þaðan fór ég 16 ára gamall til Reykjavíkur í stríðsbyrjun til að vinna á flugvellinum. Ég var einn af þeim fyrstu sem var við byggingu Reykjavíkurflugvallar,“ segir Vigfús Vigfússon, húsasmiður í Ólafsvík, í samtali við Skessuhorn. „Þá voru allir mínir félagar á Sandi farnir suður í Bretavinnu, sem kallað var. Mér gekk illa að fá leyfi hjá móður minni til að fara og var orðinn kolvitlaus, hafði ekkert að gera. Var búinn að vera þrjú sumur í vegavinnu hérna úti á Breið, milli Hellissands og Ólafsvíkur. Þar var unnið á þennan frumstæða hátt, meða haka og skóflu og hestvögnum,“ segir hann. „En svo kemur stríðið og þegar ég er á 16. ári þá hrúgast allir í bæinn til að hafa vinnu. Þetta var algjör bylting. Ekki bara fyrir mig heldur alla því þarna í fyrsta skipti fékkstu borgað í peningum, sem ekki sást á þessum árum. Það þekktist bara ekki heldur var borgað bara í einhverri vöruúttekt,“ segir hann.
„En mér er ekki síst minnisstæð sú bylting sem varð í tækjakosti á þessum árum. Þarna sá ég fyrst bílgröfu og vél vera að vinna, hjá breska hernum. Okkur þótti þetta algjör bylting frá því sem áður tíðkaðist, sem þetta auðvitað var,“ segir hann. „Síðan þegar Bandaríkjamenn koma og taka við verður sú bylting sem við sjáum í dag, með gröfurnar, kranana og ýturnar og allt saman. Þeir voru langt á undan Bretunum í allri slíkri tækni. Bretarnir voru vélvæddir töluvert en ekki neitt í líkingu við Ameríkanann,“ segir hann. „Maður horfði alveg í forundran á þessi tæki, þetta var svo mikil breyting.“

Vigfús Vigfússon húsasmiður er til viðtals í Jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira