Carmen Tyson-Thomas átti stórleik fyrir Skallagrím.

Skallagrímur tapaði gegn Breiðabliki

Skallagrímur varð að lúta í lægra haldi gegn Breiðabliki, 84-68, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á föstudag. Skallagrímur lék án landsliðskonunnar Sigrúnar Sjafnar Ámundadóttur, sem fór úr axlarlið í leik gegn Val á miðvikudag.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en Breiðablik náði undirtökunum eftir því sem leið á fyrsta leikhluta. Heimakonur leiddu með sjö stigum eftir sjö mínútna leik, 20-13 en Skallagrímskonur minnkuðu muninn niður í þrjú stig áður en leikhlutinn var úti, 22-19. Þær komust yfir snemma í öðrum fjórðungi, 26-27, en leiddu ekki lengi. Blikakonur tóku forystuna aftur strax í næstu sókn og með góðum kafla náðu þær 13 stiga forskoti skömmu fyrir hléið, 40-27. Skallagrímur átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik og náði að minnka muninn í sex stig fyrir hléið, 40-34.

Skallagrímskonur gerðu harða atlögu að forskoti Blika í upphafi síðari hálfleiks og aðeins munaði tveimur stigum á liðunum eftir sex mínútur í þriðja leikhluta, 48-46. En þá náði Breiðablik miklum spretti og 18 stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 64-46. Þær héldu síðan öruggu forskoti allt til leiksloka og hleyptu Skallagrími ekki inn í leikinn að nýju. Leiknum lauk með 18 stiga sigri Breiðabliks, 84-68.

Carmen Tyson-Thomas átti stórleik fyrir Skallagrím og setti upp myndarlega þrennu. Hún skoraði 36 stig, tók 16 fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Jóhanna Björk Sveinsdóttir var með 16 stig og átta fráköst en aðrar höfðu minna.

Ivory Crawford var atkvæðamest í liði Breiðabliks með 37 stig og ellefu fráköst, Sóllilja Bjarnadóttir skoraði 20 stig og Ísabella Ósk Sigurðardóttir var með tíu stig, 13 fráköst og fimm stoðsendingar.

Skallagrímur situr í 5. sæti deildarinnar með tólf stig eftir ellefu leiki, en liðin í 3.-6. sæti eru öll jöfn að stigum. Næst leikur Skallagrímur á miðvikudaginn, 6. desember, þegar liðið mætir Keflavík í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir