„Veturinn leggst bara vel í mig,“ segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, í samtali við Skessuhorn. Kvennalið Snæfells leikur í Domino‘s deildinni á komandi vetur. Liðið var deildarmeistari á síðasta keppnistímabili og komst alla leið í úrslitaviðureignina um Íslandsmeistaratitilinn en varð að játa sig sigrað gegn Keflavík í fjórum leikjum. En lið Snæfells hefur tekið töluvert miklum breytingum frá því úrslitakeppninni lauk á vordögum. En þrátt fyrir breytingar á liðinu er stefna þjálfarans skýr hvað varðar komandi tímabil í Domino‘s deildinni. „Markmiðið er að vera eitt af þeim liðum sem tekur þátt í úrslitakeppninni í vor. Við byrjum á því og sjáum hvort við náum ekki að standa undir því. Þegar komið er í úrslitakeppnina getur síðan allt gerst,“ segir Ingi. Fyrsti leikur Snæfells í Domino‘s deild kvenna fer fram í kvöld, miðvikudaginn 4. október, þegar liðið mætir Keflavík í Stykkishólmi. Nánar er rætt við Inga Þór í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.