Lið Snæfells eftir að hafa tryggt sér deildarmeistaratitilinn á dögunum. Ljósm. karfan.is

Snæfellskonur komnar með yfirhöndina

Snæfell bar sigurorð af Stjörnunni í gær í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Dominos deildar kvenna í körfubolta. Lokatölur leiksins urðu 93-78 sem fram fór í Stykkishólmi og leiddu Snæfellskonur allan leikinn.

Atkvæðamest Snæfellskvenna í leiknum var Aaryn Ellenberg sem átti stórleik. Hún skoraði 42 stig, hirti 14 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Næstar komu Gunnhildur Gunnarsdóttir með 13 stig, Bryndís Guðmundsdóttir með 12, Berglind Gunnarsdóttir 11, María Björnsdóttir 6, Alda Leif Jónsdóttir 5 og loks Andrea Björt Ólafsdóttir og Sara Diljá Sigurðardóttir með 2 stig hvorar.

Snæfellskonur eru þar með komnar með yfirhöndina í undanúrslita einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaleikinn. Næsti leikur liðanna fer fram í Garðabæ næst komandi laugardag 1. apríl kl. 16:30. Í hinu einvígi undanúrslitanna mætast Keflavík og Skallagrímur, en fyrsti leikur liðanna fer fram í suður með sjó í kvöld kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir