Leikið var í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gær. Í Borgarnesi tóku Skallagrímsmenn á móti Keflvíkingum og unnu mikinn baráttusigur eftir spennandi lokafjórðung, 80-71. Skallagrímsmenn náðu heldur yfirhöndinni í leiknum snemma í fyrsta leikhluta en Keflvíkingar fylgdu þeim eins og skugginn og aðeins munaði stigi þegar leikhlutinn var úti. Þeir hófu annan fjórðung af krafti og náðu sex stiga forskoti en Keflvíkingar svöruðu fyrir sig með góðum kafla. Þeir náðu að jafna þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik og áttu síðan lokaorðið og leiddu með þremur stigum í hléinu, 31-34. Gestirnir frá Keflavík höfðu yfirhöndina fyrst eftir hléið, leiddu allan þriðja leikfjórðunginn en Skallagrímsmenn voru aldrei langt undan. Þegar leikhlutinn var úti munaði fjórum stigum, Keflavík leiddi 51-55 og upphófst þá spennandi lokafjórðungur. Skallagrímsmenn voru gríðarlega ákveðnir síðustu tíu mínútur leiksins. Með snörpum kafla snemma leikhlutans komust þeir en Keflvíkingar jöfnuðu og leikurinn í járnum. Jafnt var á öllum tölum þegar tvær mínútur voru eftir en í blálokin sigldu Skallagrímsmenn sigrinum heim og unnu með níu stigum, 80-71. Flenard Whitfield skoraði 24 stig fyrir Skallagrím, tók tólf fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Sigtryggur Arnar Björnsson var með 21 stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar og Eyjólfur Ásberg Halldórsson skoraði 13 stig og tók sjö fráköst. Með sigrinum nældi Skallagrímur sér í mikilvæga punkta í neðri hluta deildarinnar. Liðið situr í 9. sæti með fjögur stig eftir sex leiki. Næsti leikur Skallagríms fer fram í Stykkishólmi fimmtudaginn 17. nóvember næstkomandi þegar liðið mætir Snæfelli í Vesturlandsslag Domino‘s deildar karla.