Hulda Birna, Jón Þór og Sævar Freyr við undirritun samningsins.

Samið við Jón Þór um áframhaldandi þjálfun hjá KFÍA

Knattspyrnufélags ÍA mun áfram njóta krafta Jón Þórs Haukssonar yfirþjálfara yngri flokka og afreksstarfs og sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla. Jón Þór hefur skrifað undir áframhaldandi samning við Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA). Hann hefur starfað hjá félaginu sem þjálfari undanfarin átta ár, tók við starfi yfirþjálfara haustið 2013 en hann hefur síðan þá einnig verið aðstoðarþjálfari mfl. karla.

„Það eru mjög spennandi hlutir að gerast í KFÍA og frábært að fá að taka þátt í þessari þróun. Við erum að hefja okkar þriðja tímabil í Pepsi deild karla og teljum okkur vera á réttri leið með liðið og ég er spenntur fyrir því að halda áfram þeirri vegferð,“ segir Jón Þór. „Það er einnig margt óunnið með þann hóp og hlakka ég til áframhaldandi samstarfs okkar Gunnlaugs Jónssonar með liðið. Með ráðningu öflugra þjálfara síðustu vikna fyrir meistaraflokk kvenna og í alla yngri flokka félagsins hefur félagið sýnt metnað sinn í að vera fremstu röð í þjálfun í öllum flokkum kvenna og karla.  Í vetur munum við leggja áherslu á að þróa og gefa ungum leikmönnum tækifæri og það er stefna félagsins að halda áfram að hlúa vel að ungum og efnilegum leikmönnum.“

Hulda Birna Baldursdóttir framkvæmdastjóri KFÍA segir að ráðning Jóns Þórs sé einn liður í því að byggja upp öflugt uppeldis- og afreksstarf og vera með þjálfara í fremstu röð, hann sé mikilvægur hlekkur í keðjunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir