Þarna er Guðmundur Kári að framkvæma dansmóment sem kallað er hávinkill. „Dansmóment er ákveðin æfing sem við gerum á gólfæfingum,“ segir hann.

Þrír á leið á Evrópumót í hópfimleikum

Þrír ungir menn sem eiga rætur í Fimleikafélagi Akraness, FIMA, eru nú á morgun á leið með öðru landsliðsfólki á Evrópumót í hópfimleikum. Mótið er haldið í Maribor í Slóveníu. Þetta eru þeir Logi Örn Axel Ingvarsson, Helgi Laxdal Aðalgeirsson og Guðmundur Kári Þorgrímsson sem allir æfa nú með Stjörnunni í Garðabæ. Þeir Logi og Helgi stunda báðir nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi en Þorgrímur Kári er á leiklistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Evrópumótið fer fram í þessari viku frá 10.-16. október. Undankeppni verður á miðvikudag en úrslitakeppnin á föstudag. Landslið Íslands er skipað tólf ungmennum, sex af hvoru kyni. Tíu keppa en tvö eru til vara. Hópfimleikar er dýr íþróttagrein og kostar það hvern keppanda í landsliðinu um 350 þúsund krónur að taka þátt á Evrópumótinu.

Skessuhorn sló á þráðinn til eins Vestlendingsins sem tekur þátt, Guðmundar Kára Þorgrímssonar. Hann er frá Erpsstöðum í Dölum. Guðmundur Kári kveðst spenntur að taka þátt í mótinu, en vissulega hafi fjármögnun ferðarinnar tekið sinn toll enda er mótið kostnaðarsamt. „Ég hef verið að selja sjampó, unnið við vörutalningu í Bónus og bara allt sem hefur boðist til að vinna upp í ferðakostnaðinn. Mesta aðstoð hef ég þó fengið frá sveitungum mínum en ég óskaði eftir stuðningi með því að setja inn stadus á Facebook-síðu Dalamanna, sem heitir Sölusíða Dalabyggðar og Reykhólasveitar. Fólk hefur verið duglegt að styrkja mig. Líklega er ég með þessu búinn að fjármagna um helming ferðakostnaðarins,“ sagði Guðmundur Kári þegar blaðamaður heyrði í honum í dag. Hann kveðst búast við að það sem uppá vantaði á ferðakostnaðinn muni foreldrar hans greiða.

En aðdragandi þess að Guðmundur Kári er nú í landsliðinu í hópfimleikum hefur verið talsverður, enda ekki sjálfgefið að sveitapiltur nái þessum árangri í hópfimleikum. „Það var þannig að þegar ég var í sjöunda bekk grunnskóla fékk ég að æfa í einn vetur á Akranesi. Mamma keyrði mig einu sinni í viku á æfingar hjá FIMA og bróðir minn byrjaði í fótbolta á sama tíma. Þegar ég svo var í áttunda bekk, veturinn 2012-2013, flutti mamma með mig, bróður minn og yngri systur á Akranes þar sem við bjuggum þá um veturinn. Þá fékk ég að prófa að búa í þéttbýlinu í einn vetur og æfa af kappi. Eftir áttunda bekkinn fluttum við svo aftur heim í sveitina og hætti ég þá að æfa fimleika um tíma. Haustið 2015 byrjaði ég svo í Verkmenntaskólanum á Akureyri og fór að æfa með Fimleikafélaginu á Akureyri. Þá var mér boðið að mæta á landsliðsúrtökuæfingar og hef verið í liðinu síðan. Ég skipti svo um skóla í haust, byrjaði í Fjölbraut í Garðabæ og fór að æfa fimleika með Stjörnunni,“ segir Guðmundur Kári.

 

Því má við þetta bæta að ef lesendur vilja styrkja Guðmund Kára í verkefni hans, þá er söfnunarreikningsnúmer: 0318-13-110245 og kennitalan 120199-2859.

Líkar þetta

Fleiri fréttir