Sefton Barrett treður í leik fyrr í vetur. Ljósm. Karfan.is á Facebook.

Snæfell tapaði stórt í fyrsta leik

Keppni í Domino‘s deild karla í körfuknattleik hófst í gærkvöldi með tveimur leikjum. Snæfell heimsótti ÍR í Breiðholti og Hólmarar riðu ekki feitum hesti frá þeirri viðureign. ÍR-ingar voru sterkari meira og minna allan leikinn og ungt lið Snæfells náði aldrei að gera neina alvöru atlögu að forystunni. Að lokum fór svo að ÍR-ingar sigruðu stórt, 96-65.

Snæfell réði hraða leiksins fyrst um sinn og jafnt var á með liðunum í fyrsta leikhluta. Eftir það fundu ÍR-ingar fjölina sína og tóku öll völd á vellinum. Þeir bættu hægt og rólega við forskot sitt í og leiddu í hálfleik, 50-37.

Munurinn breyttist lítið sem ekkert í þriðja leikhluta. Snæfelli tókst ekki að gera atlögu að heimamönnum sem héldu alltaf 12 til 15 stiga forskoti. ÍR-ingar bættu svo í allan lokafjórðunginn og stigamunurinn varð smám saman meiri og meiri. Að lokum fór svo að ÍR-ingar sigruðu með 31 stigi, 96-65.

Sefton Barrett var atkvæðamestur Snæfells í leiknum með 27 stig og 14 fráköst. Næstur honum kom Viktor Marinó Alexandersson með 14 stig en aðrir höfðu minna.

Næsti leikur Snæfells er jafnframt fyrsti heimaleikur liðsins í vetur. Hann fer fram fimmtudaginn 13. október, þegar Njarðvíkingar sækja Hólminn heim.

Líkar þetta

Fleiri fréttir