Fannar Freyr Helgason og liðsfélagar hans í ÍA máttu sætta sig við tap á Selfossi í gær. Ljósm. úr safni.

Slæm byrjun í síðari hálfleik reyndist Skagamönnum dýrkeypt

Keppni í 1. deild karla í körfuknattleik hófst í gær með tveimur leikjum. Annar þeirra var viðureign ÍA og FSu sem fram fór á Selfossi. Leiknum lauk með sigri FSu, 82-65.

Heimamenn byrjuðu betur í leiknum en leikmenn ÍA þurftu smá tíma til að komast almennilega í gang. Jafnt var á með liðunum frá miðjum fyrsta leikhluta en heimamenn heldur sterkari allt þar til rétt fyrir leikhléið. Þá náðu Skagamenn snörpum leikkafla, náðu að stela forskotinu og leiddu með einu stigi í hálfleik, 34-33 og leikurinn galopinn.

En Skagamenn byrjuðu þriðja leikhlutann afleitlega. Fimm mínútur liðu áður en þeir skoruðu fyrstu stig síðari hálfleiks en á meðan tóku heimamenn leikinn í sínar hendur og náðu 15 stiga forskoti. Eftir að fyrsta karfa ÍA fór niður tók liðið við sér og náði að minnka muninn í fimm stig fyrir lokafjórðunginn. En leikmenn FSu létu forystuna aldrei af hendi, þvert á móti bættu þeir í allt til leiksloka og unnu að lokum 17 stiga sigur, 82-65.

Derek Shouse var stigahæstur leikmanna ÍA með 30 stig. Hann tók auk þess ellefu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Næstur honum kom Fannar Freyr Helgason með tíu stig og átta fráköst.

Skagamenn leika næst sunnudaginn 9. október næstkomandi þegar liðið tekur á móti Hamri í fyrsta heimaleik vetrarins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir