„Spennandi að stíga inn í pólitík í dag“

Eva Pandora Baldursdóttir er oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi. Hún er fædd og uppalin á Sauðárkróki og er með gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Nú stundar hún MPA nám í opinberri stjórnsýslu við sama skóla. Hún kemur nú fersk inn í stjórnmál en hún skráði sig nýlega í flokk Pírata, þótt hún hafi fylgst með hreyfingunni síðan 2013. Eva hafði verið óflokksbundin í nokkur ár eftir að hún gerði sér grein fyrir að málefni Framsóknarflokksins rímuðu ekki við hennar skoðanir. Hún var áður skráð í Framsóknarflokkinn líkt og margir Skagfirðingar. „Þegar ég kynnti mér Pírata fann ég flokk sem var samhljóma mínum skoðunum.“

Eva Pandora segist bjartsýn að komast á þing. „Ég er jákvæð, en vil ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut. Það getur allt gerst í pólitík,“ segir hún og hlær. Hún átti sitt fyrsta barn fyrir þremur vikum og er í fæðingarorlofi. Varaþingmaður myndi því sinna þingstörfum til að byrja með en Eva Pandora segir að hún myndi hiklaust taka þingsætinu verði niðurstaða kosninganna sú. „Þingmenn eru bara venjulegt fólk og eignast börn eins og aðrir.“ Hún er þó ekki alveg viss hvenær hún myndi koma til starfa eftir fæðingarorlof. „Upprunalegt plan var að vera í fæðingarorlofi til 1. júní, en það gæti vel verið að ég endurskoði það,“ segir hún og bætir við að maðurinn hennar muni taka þriggja mánaða fæðingarorlof á móti henni.

Spurð út í nafnið Pandora segir Eva Pandora að foreldrum hennar hafi einfaldlega þótt það fallegt og nafnið sé úr grískri goðafræði. Mamma hennar er tælensk og vildi því gefa börnunum alþjóðleg nöfn.

Í Skessuhorni vikunnar er rætt nánar við Evu Pandoru oddvita Pírata í Norðvestukjördæmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir