Helstu stefnumál eru velferðar- og heilbrigðismálin

Skessuhorn mun í þeim tölublöðum sem koma út fram að kosningum til Alþingis 29. október næstkomandi eiga samtal við fulltrúa þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram lista í Norðvesturkjördæmi.

Lilja Rafney Magnúsdóttir skipar oddvitasætið á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi. Hún hefur setið á þingi í tvö kjörtímabil og bar nýverið sigur úr býtum í forvali VG í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rafney er gift Hilmari Oddi Gunnarssyni sjómanni og bílstjóra frá Skagaströnd og eiga þau fjögur börn og þrjú barnabörn. Lilja Rafney er fædd og uppalin á Suðureyri við Súgandafjörð og var mikið í sveit hjá afa sínum og ömmu á Stað í Súgandafirði sem barn. Hún segir það að hafa alist upp í sveitinni og sjávarþorpinu hafa mótað sig sem manneskju. „Það var talað við okkur börnin í þorpinu og sveitinni sem jafningja. Við fengum að taka þátt í leik og starfi, að kynnast lífinu frá mörgum hliðum og það var mjög þroskandi,“ segir Lilja Rafney. Hún segir æskuna hafa verið yndislega og svo hafi alvara lífsins tekið við þegar hún og Hilmar Oddur stofnuðu heimili ung að árum. „Ég náði honum vestur sem ungum manni og þá var ekki aftur snúið. Við höfum búið á Suðureyri okkar búskapartíð og gerum enn, en ég flýg vestur um hverja helgi.“ Lilja Rafney hefur verið alþingismaður kjördæmisins síðan 2009 og var varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið um tíma sem og fyrir VG. Lilja Rafney hefur átt sæti í mörgum nefndum, svo sem félags- og tryggingamálanefnd, heilbrigðisnefnd, iðnaðarnefnd, samgöngunefnd, menntamálanefnd, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og velferðarnefnd, ásamt fleirum. Hún sat í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins frá 2009 – 2013 og frá 2014 til dagsins í dag.

Sjá nánar viðtal við Lilju Rafneyju í Skessuhorni í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir