Bestu og efnilegustu leikmenn meistaraflokka karla og kvenna. F.v. Ármann Smári Björnsson, bestur að mati stuðningsmanna, Bergdís Fanney Einarsdóttir og Tryggvi Hrafn Haraldsson efnilegustu leikmennirnir. Til hægri eru síðan bestu leikmennirnir; Megan Dunnigan, sem einnig var valin best að mati stuðningsmanna, og Garðar Gunnlaugsson. Ljósm. KFÍA.

Garðar og Megan valin best á lokahófi ÍA

Lokahóf meistaraflokka og 2. flokks karla og kvenna hjá Knattspyrnufélaginu ÍA var haldið síðastliðið laugardagskvöld. Gerðu knattspyrnumenn og aðstandendur vel við sig í mat og drykk og glöddust saman að keppnistímabilinu loknu. Þá voru valdir bestu leikmenn hvers liðs og þeim veittar viðurkenningar.

Garðar Gunnlaugsson var valinn besti leikmaður meistaraflokks karla og Tryggvi Hrafn Haraldsson efnilegastur. Í meistaraflokki kvenna var Megan Dunnigan valin besti leikmaðurinn og Bergdís Fanney Einarsdóttir efnilegust. Að mati stuðningsmanna voru Ármann Smári Björnsson og Megan bestu leikmenn meistaraflokksliðanna.

Bestur í 2. flokki karla var valinn Hafþór Pétursson og Arnór Sigurðsson efnilegastur. Kiddabikarinn, veittur fyrirmyndarleikmanni ársins, kom í hlut Guðfinns Þórs Leóssonar.

Sandra Ósk Alfreðsdóttir var valin besti leikmaður 2. flokks kvenna og Bergdís Fanney Einarsdóttir efnilegust. TM-bikarinn, veittur fyrirmyndarleikmanni ársins, fékk Halla Margrét Jónsdóttir.

Þá voru veittar leikjaviðurkenningar þeim leikmönnum sem leikið hafa 100 leiki eða meira íklæddir gulu treyjunni. Gréta Stefánsdóttir og Maren Leósdóttir hafa leikið 100 leiki, Ármann Smári 150 leiki, Garðar Gunnlaugsson og Arnar Már Guðjónsson 250 leiki og Jón Vilhelm Ákason hvorki fleiri né færri en 300 leiki.

Að lokum voru veitt dómaraverðlaun. Ívar Orri Kristjánsson var valinn besti dómarinn, Sveinn Þór Þorvaldsson verðmætasti dómarinn og Helgi Ólafsson næstverðmætastur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir