Snæfell vann tvöfalt síðasta vetur, bæði Íslands- og bikarmeistaratitil kvenna. Hér fagnar liðið bikarmeistaratitlinum.

Vesturlandsliðunum spáð tveimur efstu sætunum

Spá formanna, þjálfara og fyrirliða í Domino‘s deildum og 1. deildum karla og kvenna fyrir tímabilið 2016-2017 var kynnt á blaðamannafundi í hádeginu í dag. Ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum Snæfells í körfuknattleik kvenna er spáð efsta sæti deildarinnar nokkuð afgerandi. Hlaut liðið 186 stig í kosningunni og hlýtur að teljast sigurstranglegt sem ríkjandi Íslandsmeistari.
Athygli vekur að nýliðum Skallagríms er síðan spáð öðru sæti deildarinnar, með 141 stig í kosningu formanna, þjálfara og fyrirliða. Ekki er algengt að nýliðum sé spáð svo góðu gengi en Skallagrímsliðið hefur styrkt sig mikið frá því það sigraði 1. deildina í vor, fengið þrjá landsliðsmenn auk fyrrum leikmanns bandaríska landsliðsins.
Ef spámennirnir reynast getspakir munu Vestlendingar því eiga tvö bestu lið landsins í körfuknattleik kvenna næsta vor. Liðin mætast einmitt í fyrstu umferð á miðvikudaginn í Borgarnesi og hefst leikurinn kl. 19:15.

Karlaliðunum spáð falli
Önnur staða er uppi í spánni fyrir Domino‘s deild karla. Stjörnunni er spáð efsta sætinu deildarinnar og Íslands- og bikarmeisturum KR öðru sætinu. Báðum Vesturlandsliðunum er hins vegar spáð falli. Snæfelli er spáð 12. og neðsta sæti með 44 stig í kosningunni en nýliðum Skallagríms næstneðsta sæti með 96 stig. Líklega mun þó hvorugt liðanna una þessari spá og gera hvað sem í þeirra valdi stendur til að gera betur og að minnsta kosti halda sæti sínu í deildinni.
Að lokum er liði ÍA spáð 7. sæti 1. deildar karla með 117 stig í kosningunni, örfáum stigum færra en næstu liðum fyrir ofan en langtum fleiri en liðum Vestra og Ármanns sem spáð er tveimur neðstu sætunum. Fjölni, sem lagði ÍA í fyrri umferð úrslitakeppninnar í vor áður en það tapaði fyrir Skallagrími í úrslitaeinvíginu, er hins vegar spáð beint upp í úrvalsdeild.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira