Meistarar meistaranna 2016. Ljósm. KKÍ.

Snæfell sigraði keppnina um Meistara meistaranna

Íslands- og bikarmeistarar Snæfells í körfuknattleik kvenna sigruðu Grindavík þegar leikið var um Meistara meistaranna í gær. Í þeim leik mætast Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs, en þar sem Stykkishólmsliðið hampaði báðum titlunum var liðið úr úrslitum bikarkeppninnar fengið til að etja kappi við Snæfell.

Nokkur haustbragur var á leik beggja liða framan af og þau voru lengi að finna taktinn. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en Snæfell hafði þó heldur yfirhöndina og leiddi með fimm stigum í leikhléi, 37-32. Snemma í síðari hálfleik náði Snæfell að slíta sig frá Grindavíkurliðinu með góðum kafla þar sem liðið skoraði níu stig gegn tveimur. Liðið fann taktinn í sókninni og Grindvíkingar máttu hafa sig alla við að halda í við Snæfell. Lagði það grunn að góðum sigri, 70-60.

Leikurinn var fyrsti leikur Taylor Brown með Snæfelli og lék hún afar vel, skoraði 29 stig, tók sjö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Næst henni kom fyrirliðinn Gunnhildur Gunnarsdóttir með 15 stig, sjö fráköst, sex stoðsendingar og fimm stolna bolta.

Með sigrinum bætti Snæfellsliðið enn einum bikarnum í safnið og ætti nafnbótin Meistarar meistaranna að gefa liðinu aukið sjálfstraust þegar haldið er inn í nýtt tímabil. Snæfell hefur leik í Domino‘s deildinni miðvikudaginn 5. október næstkomandi þegar liðið heimsækir nýliða Skallagríms.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira