Catherine Dyngvold í þann mund að skora fyrsta mark leiksins með glæsilegu langskoti. Ljósm. gbh.

Grátlegt tap í lokaleiknum

ÍA tók á móti KR í lokaleik Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu síðasta föstudag. Skagakonur áttu ekki möguleika á að halda sæti sínu í deildinni en hefðu með sigri getað tekið KR með sér niður í 1. deild. Sú varð hins vegar ekki raunin því eftir æsispennandi leik tókst gestunum að tryggja sér nauman sigur með þremur mörkum gegn tveimur og halda sæti sínu í efstu deild.

Skagakonur mættu mun ákveðnari til leiks en gestirnir og réðu lögum og lofum á vellinum á upphafsmínútunum. Þær komust síðan yfir strax á 12. mínútu leiksins. Varnarmaður KR skallaði boltann frá en beint á Catherine Dyngvold sem tók hann á brjóstkassanna og lét vaða af 25 metra færi og í fjærhornið. Stórglæsilegt mark.

Nokkuð jafnræði var með liðunum fyrst eftir markið áður en KR-ingar sóttu smám saman í sig veðrið og áttu tvö góð færi seint í hálfleiknum. Það var hins vegar ÍA sem jók forskotið á 40. mínútu leiksins. Rachel Owens átti skot að marki og í fyrstu virtist það ekki ætla að valda Ingibjörgu Valgeirsdóttur, markverði KR, teljandi vandræðum. Hún náði hins vegar ekki að halda boltanum og hann lak yfir marklínuna. ÍA leiddi því með tveimur mörkum gegn engu í leikhléinu.

KR stúlkur mættu mjög ákveðnar til leiks í síðari hálfleiks og minnkuðu muninn strax á 51. mínútu þegar Jordan O‘Brien skoraði beint úr aukaspyrnu. Næstu mínútur voru fjörugar. Markið virtist vekja Skagakonur til lífsins og munaði engu að þær bættu við eftir atgang í vítateig gestanna. KR fékk sömuleiðis sín tækifæri og að lokum fór svo að þær nýttu þau. Á 70. mínútu jafnaði Ásdís Karen Halldórsdóttir með marki eftir hornspyrnu og KR eygði möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Fjórum mínútum varði Ásta Vigdís vel úr dauðafæri. Boltinn féll fyrir fætur Söru Lissy Chontosh sem skaut í Sigríði Maríu Sigurðardóttur og þaðan í netið. Ótrúlegt mark en dugði KR til að sigra leikinn og þar með halda sæti sínu í deildinni. Skagakonur aftur á móti óheppnar að fá ekkert fyrir sinn snúð.

Keppni í Pepsi deild kvenna er þar með lokið þetta sumarið og hafnaði ÍA í 10. og neðsta sæti deildarinnar með átta stig. Þær leika því í 1. deild næsta sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira