Pálína María Gunnlaugsdóttir og Gunnar Svanlaugsson, formaður kkd. Snæfells, handsala samninginn. Ljósm. snaefell.is.

Pálína í Snæfell og Berglind framlengir

Snæfell hefur samið við landsliðskonuna Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur um að leika með liðinu í Domino‘s deild kvenna á komandi vetri. Pálína er 29 ára gömul og leikur stöðu bakvarðar. Hún lék með Haukum á síðasta tímabili, skoraði 10,9 stig að meðaltali í leik og hefur verið einn besti leikmaður landsins undanfarin ár.

Sem leikmaður Hauka mætti Pálína liði Snæfells í úrslitaviðureigninni um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Snæfell sigraði sem kunnugt er þá viðureign í oddaleik. Í samtali við Skessuhorn skömmu eftir að bikarinn fór á loft sagði Haiden Palmer, þáverandi leikmaður Snæfells og mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar, að Pálína væri sterkasti mótherji sem hún hefði spilað gegn hér á landi. „Pálína er frábær varnarmaður og leikmaður. Það var virkileg áskorun að spila gegn henni og gerði mig að betri leikmanni,“ sagði Haiden.

Pálína gerði eins árs samning við Snæfell og það er ljóst að hún verður Íslands- og bikarmeisturunum mikill liðsstyrkur.

 

Berglind framlengir

Bakvörðurinn Berglind Gunnarsdóttir hefur jafnframt framlengt samning sinn við Snæfell til eins árs og mun leika með liðinu í vetur.

Berglind er 23 ára gömul og uppalin hjá Snæfelli. Hefur hún leikið með liðinu allan sinn feril og þrisvar sinnum hampað Íslandsmeistaratitlinum og einu sinni bikarmeistaratitlinum. Þá er hún enn fremur leikmaður íslenska landsliðsins. Berglind skoraði 8,9 stig og tók 4,9 fráköst að meðaltali í leik í fyrra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira