Þórður Þorsteinn fagnar marki í sumar ásamt liðsfélögum sínum. Ljósm. Guðmundur Bjarki

Þórður Þorsteinn valinn í U21 árs landsliðið

Þórður Þorsteinn Þórðarson, leikmaður ÍA, hefur verið valinn í lokahóp U21 árs landsliðs karla sem tekur á móti Skotum miðvikudaginn 5. október og Úkraínumönnum þriðjudaginn 11. október næstkomandi. Frá þessu er greint á heimasíðu knattspyrnufélagsins.

Eru það tveir síðustu leikir liðsins í undankeppni fyrir Evrópukeppnina 2017 sem fram fer í Póllandi. Fyrir leikina er Ísland í þriðja sæti riðilsins, þremur stigum á eftir toppliði Makedóníu og tveimur stigum á eftir Frökkum. Ísland á hins vegar tvo leiki til góða á bæði liðin og á því ágæta möguleika á að komast í lokakeppnina. Sigurlið hvers riðils tryggir sér sjálfkrafa þátttökurétt en þau fjögur lið sem hafa bestan árangur í öðru sæti komast í umspil um tvö laus sæti.

Þórður kom inn í meistaraflokkslið ÍA á síðasta ári og vakti frammistaða hans athygli. Þá lék hann fyrst og fremst stöðu bakvarðar en var færður framar á völlinn í sumar og hefur byrjað flesta leiki á hægri kantinum. Hann hefur komið við sögu í 19 leikjum það sem af er sumri og skorað í þeim þrjú mörk. Þórður hefur áður verið valinn í U21 árs landsliðið, fyrir leikina gegn Norður-Írum og Frökkum í byrjun septembermánaðar, en kom ekki við sögu í þeim leikjum. „Við óskum Þórði til hamingju með valið og vonumst til að sjá hann fá tækifæri til að sýna hvað í honum býr inni á vellinum að þessu sinni,“ segir á heimasíðu KFÍA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira