Umdeildasta atvik leiksins. Boltinn skríður hér yfir línuna eftir að markvörður KR-inga sló hann í eigið net. Markið var dæmt gott og gilt en dómari leiksins sneri dómnum skömmu síðar og dæmdi markið af. Ljósm. Alfons Finnsson.

Umdeilt atvik kostaði Víking Ó. stig í fallbaráttunni

 

Víkingur Ó. tók á móti KR í 21. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu í gær. Ólafsvíkurliðið hefur átt erfitt uppdráttar á síðari hluta móts en með hagstæðum úrslitum hefði liðið getað gulltryggt sæti sitt í deildinni. Svo varð hins vegar ekki, því gestirnir sigruðu með einu marki gegn engu.

Víkingar voru sterkari á upphafsmínútum leiksins en tókst ekki að komast yfir. Til þess fengu þeir þó kjörið færi strax á 5. mínútu. Þeir fengu aukaspyrnu rétt við vítateigslínuna en spyrnan var slök og fór beint í vegginn. Þaðan hrökk boltinn beint á Aleix Egea sem var óvænt kominn einn í gegn en skaut beint á markmanninn. Víkingar höfðu yfirhöndina en það voru KR-ingar sem komust yfir gegn gangi leiksins á 28. mínútu. Aleix reyndi að hreinsa frá marki Víkings en þrumaði boltanum beint í Pálma Rafn Pálmason sem slapp við það einn í gegn og vippaði boltanum snyrtilega yfir Christian Liberato í marki Víkings.

Markið blés KR-ingum kapp í kinn og höfðu þeir öll völd á vellinum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Leikmenn Víkings voru hins vegar heillum horfnir. Fleiri mörk voru hins vegar ekki skoruð í fyrri hálfleik og gestirnir leiddu því í leikhléinu.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik af krafti og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að jafna metin. Þeir vildu fá vítaspyrnu strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Pape Mamadou Faye vildi meina að brotið hafi verið á sér en dómari leiksins var á öðru máli. Stuttu síðar fékk Pape dauðafæri þegar hann vann boltann af varnarmanni KR en skaut beint á markvörðinn. Liðin skiptust síðan á að sækja næstu mínúturnar, heimamenn voru áfram betra lið vallarins en tókst ekki að skapa sér nægilega góð færi.

Á 75. mínútu átti sér stað umdeilt atvik. Víkingur Ó. átti hornspyrnu sem markvörður KR hugðist kýla í burtu. Til þess klifraði hann upp á bakið á Þorsteini Má sem stóð kyrr í teignum en sló boltann í eigið net. Markið var dæmt gott og gilt en dómari leiksins sneri dómnum skömmu síðar. Hvers vegna veit enginn og Ólafsvíkingar eðlilega mjög óánægðir.

Botninn datt úr leik liðanna eftir þetta og fátt markvert gerðist til loka. Heimamenn virtust hreinlega búnir með alla orku og KR-ingar höfðu ekkert á móti því að láta tímann líða. Leiknum lauk því með 0-1 sigri KR og leikmenn Víkings því ekki hólpnir enn. Þeir sitja í 10. sæti deildarinnar með 21 stig, tveimur stigum betur en Fylkir í sætinu fyrir neðan. Í lokaumferðinni 1. laugardag næstkomandi leikur Víkingur gegn Stjörnunni á útivelli. Víkingur Ó. þarf helst að vinna þann leik, erfitt gæti reynst að treysta á jafntefli þar sem liðið er jafnt Fylki að markatölu, innbyrðis viðureignir eru jafnar en Víkingur hefur þó skorað tveimur mörkum fleira í deildinni en Fylkir. Það er því ljóst að mikil spenna verður við botn deildarinnar í lokaumferðinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir