Skagakonur mættu ofjörlum sínum í miklum baráttuleik við Breiðablik á laugardag. Sterkur varnarleikur og mikil barátta dugði ekki til, Breiðablik vann tveggja marka sigur og Skagakonur eru fallnar. Ljósm. úr safni.

Skagakonur eru fallnar eftir tap gegn Blikum

Skagakonur heimsóttu Breiðablik í 17. umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu á laugardag. Lið ÍA var sem kunnugt er á botni deildarinnar fyrir leikinn og hefði þurft á sigri að halda gegn sterku liði Blika, auk hagstæðra úrslita í leikjum liðanna fyrir ofan, til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Bæði KR og Selfoss töpuðu sínum leikjum, en það gerði ÍA einnig, með tveimur mörkum gegn engu og Skagakonur því fallnar.

Sterkt lið Breiðabliks kom ákveðið til leiks en það gerði ÍA einnig. Blikar sóttu af krafti allan fyrri hálfleikinn en komust lítt áleiðis gegn sterkum varnarleik Skagakvenna. Hart var barist og hvorugt lið ætlaði að gefa tommu eftir. Blikar komust næst því að skora á 28. mínútu þegar Málfríður Erna Sigurðardóttir átti góðan skalla að marki eftir skyndisókn. Ásta Vigdís í marki ÍA mátti hafa sig alla við að verja boltann í stöngina og út. Sóknarlotur ÍA voru fáar og langt á milli þeirra en þó til staðar. Þær fengu mjög efnilega sókn undir lok fyrri hálfleiks þegar Catherine Dyngvold vann boltann af varnarmanni. Megan Dunnigan kom með henni og þær voru komnar tvær á móti tveimur varnarmönnum og hefðu getað gert sér mat úr því tækifæri. Sending Catherine á Megan var hins vegar slök og færið rann út í sandinn. Staðan í leikhléi því markalaus.

Áfram var jafnræði með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Breiðablik átti fyrsta færið en litlu mátti muna að ÍA kæmist yfir á 53. mínútu. Catherine lagði boltann á Megan sem var komin ein í gegn en skot hennar var varið út í teiginn. Þar féll boltinn fyrir Catherine sem reyndi að fylgja á eftir en varnarmenn Blika komust fyrir skotið á elleftu stundu og björguðu í horn.

Blikar sóttu heldur í sig veðrið eftir þetta og sóknarþungi þeirra jókst eftir því sem á leið. Skagakonur vörðust hins vegar vel og gerðu gestunum mjög erfitt fyrir. En á endanum varð eitthvað undan að láta. Á 82. mínútu kom Fanndís Friðriksdóttir Breiðabliki með skoti úr teignum eftir góða sendingu frá Esther Rós Arnarsdóttur. Þær innsigluðu síðan sigurinn á 89. mínútu þegar Málfríður Erna skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu Hallberu Gísladóttur. Lokatölur því 2-0 sigur Breiðabliks og lið ÍA því fallið þegar ein umferð er eftir. Í lokaleiknum tekur ÍA á móti KR föstudaginn 30. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir