Guðmundur Böðvar Guðjónsson skýtur að marki eftir hornspyrnu. Boltinn hafnaði uppi í þaknetinu og reyndist það vera eina mark leiksins. Ljósm. Guðmundur Bjarki.

Góður síðari hálfleikur skóp sigur Skagamanna

ÍA tók á móti Breiðabliki í 21. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu í gær. Skagamenn höfðu að litlu að keppa í þessum næstsíðasta leik sumarsins, siglda lygnan sjó um miðja deild. Blikar voru hins vegar í mikilli baráttu við Stjörnuna um 2. sæti deildarinnar og þar með Evrópusæti. Leiknum lauk engu að síður með sigri Skagamanna með einu marki gegn engu.

En það voru Blikar sem byrjuðu betur. Þeir voru mun ákveðnari í öllum sínum aðgerðum og voru betra lið vallarins meira og minna allan fyrri hálfleikinn. Eftir um það bil korters leik þegar Árni Vilhjálmsson slapp einn í gegn og vippaði boltanum yfir Árna Snæ í marki Skagamanna. Boltinn skoppaði rétt fyrir framan markið og þaðan upp í þverslána og út áður en Gylfi Veigar kom boltanum í burtu. Blikar óheppnir að skora ekki en Skagamenn sluppu með skrekkinn.

Blikar voru áfram betri en Skagamenn fengu gott eftir hálftíma leik. Þeir áttu fyrirgjöf frá hægri, beint á kollinn á Tryggva sem var aleinn og óvaldaður í teignum. Skalli hans misheppnaðist hins vegar algjörlega og skapaði gestunum engin vandræði. Ekki er loku fyrir það skotið að sólin hafi truflað Tryggva, hann hafi hreinlega ekki séð boltann nægilega vel.

En áfram héldu gestirnir að sækja og á 41. mínútu fengu þeir aukaspyrnu, rétt utan vítateigs aðeins vinstra megin við bogann. Oliver Sigurjónsson spyrnti frábæru skoti að marki, yfir vegginn sem stefndi í samskeytin vinstra megin. Boltinn small hins vegar í þverslánni öðru sinni og aftur sluppu Skagamenn með skrekkinn.

Staðan í leikhléi var því markalaus, en gestirnir óheppnir að leiða ekki eftir fjörugan fyrri hálfleik.

Skagamenn mættu ákveðnari til síðari hálfleiks og leyfðu gestunum ekki lengur að ráða lögum og lofum á vellinum. Þeir bættu leik sinn verulega frá því í fyrri hálfleik og komust yfir á 57. mínútu. Tryggvi tók hornspyrnu frá hægri og sendi boltann með jörðinni út í teiginn. Fyrsti maður missti af honum og boltinn barst á Guðmund Böðvar sem smellti honum viðstöðulaust upp í þaknetið og kom ÍA yfir.

Blikar reyndu hvað þeir gátu að svara strax og smám saman jókst sóknarþungi þeirra. Leikur gestanna var mun slakari í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Þrátt fyrir mikinn sóknarþunga á kafla virkuðu þeir hálf bitlausir, gekk illa að skapa sér færi og Skagamenn líklegri til að bæta við úr skyndisókn en Blikar að jafna.. Þannig fékk Garðar Gunnlaugs gott færi eftir skyndisókn þegar korter lifði leiks eftir langa sendingu. Hann náði hins vegar ekki nógu góðu valdi á boltanum og þar með ekki nógu góðu skoti. Á lokamínútum leiksins var síðan komið að heimamönnum að skjóta í þverslána. Stefán Teitur átti gott skot úr vítateignum í slána og niður. Fleiri mörk voru því ekki skoruð og Skagamenn sigruðu með einu marki gegn engu.

Þeir eru í 7. sæti deildarinnar með 31 stig fyrir lokaumferðina. Hún verður leikin laugardaginn 1. október næstkomandi og þar heimsækja Skagamenn lið Vals á Hlíðarenda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir