Skagamenn fengu óskabyrjun í leiknum gegn Stjörnunni en máttu sætta sig við tap. Ljósm. úr safni.

Skagamenn töpuðu þrátt fyrir óskabyrjun

Í gær mættust ÍA og Stjarnan í 20. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Leikið var í Garðabænum og máttu Skagamenn sætta sig við 3-1 tap.

Skagamenn fengu óskabyrjun því þeir komust yfir strax á 3. mínútu leiksins. Darren Lough átti fyrirgjöf frá vinstri. Boltinn fór af varnarmanni, þaðan í stöngina og í þann mund sem markvörður Stjörnunnar blakaði honum frá lyfti aðstoðardómarinn flaggi sínu til marks um að boltinn hafi varið yfir línuna. Skagamenn því komnir yfir.

Heimamönnum var nokkuð brugðið eftir markið furðulega og tóku næstu tíu mínútur í að jafna sig. Eftir það tóku þeir að sækja af fullum þunga en Skagamenn lágu til baka og beittu skyndisóknum. Stjörnumenn voru heilt yfir sterkari það sem eftir lifði hálfleiks, sköpuðu sér nokkur mjög góð færi en leikmenn ÍA vörðust prýðilega og hefðu getað laumað inn marki eftir skyndisókn. Skagamenn virtust ætla að halda forystunni allt til leikhlés en rétt áður en fyrri hálfleikur var úti jöfnuðu heimamenn. Þeir fengu hornspyrnu og eftir frábæra fyrirgjöf björguðu Skagamenn á marklínu en Eyjólfur Héðinsson tók frákastið og skoraði.

Stjarnan komst síðan yfir strax eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Halldór Orri Björnsson lét vaða eftir góðan sprett og skoraði með hnitmiðuðu skoti. Upp úr því tóku heimamenn öll völd á vellinum en það varði ekki lengi því Skagamenn tóku að sækja í sig veðrið. Þeir voru nálægt því að jafna eftir klukkustundar leik þegar Hafþór Pétursson skallaði að marki en Stjörnumenn björguðu á línu.

Næstu mínútur fengu Skagamenn nokkur ágæt færi sem þeim tókst ekki að gera sér mat úr. Stjörnumenn gerðu breytingar á liðskipan sinni og við það batnaði leikur þeirra. Þeir gerðu síðan út um leikinn á 81. mínútu þegar Baldur Sigurðsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Staðan orðin 3-1 og þannig urðu lyktir leiksins. Skagamenn sitja í 7. sæti deildarinnar með 28 stig þegar tveir leikir eru eftir. Næst mæta þeir Breiðabliki á Akranesvelli sunnudaginn 25. september næstkomandi.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir