Víkingar sigruðu í fyrri leik liðanna en töpuðu í gær. Ljósm. af.

Vildu tvær vítaspyrnur en fengu hvoruga

Víkingur Ó. mætti Fylki í Pepsi deild karla í knattspyrnu í gær. Búast mátti við hörkuleik í Árbæ Reykjavíkur þar sem bæði lið bítast um að halda sæti sínu í deildinni. Víkingar voru í 9. sæti, tveimur stigum fyrir ofan Fylki í næstneðsta sæti. Þegar lokaflautan gall var niðurstaðan sú að heimaliðið hafði sigur með tveimur mörkum gegn einu.

Nokkur harka var í leiknum og bæði lið mætt til að berjast. Leikurinn tók hins vegar óvænta stefnu þegar Fylkismenn komust yfir með ótrúlegu marki eftir skyndisókn strax á 8. mínútu. Víkingur átti hornspyrnu sem var skölluð frá. Emir Dokara hugðist ná boltanum en tókst ekki. Boltinn barst á Alvaro Calleja og Emir kominn langt út úr sinni varnarstöðu. Alvaro var á sínum eigin vallarhelmingi þegar hann fékk boltann en hljóp upp allan völl og kláraði færið vel.

Víkingur var sterkara lið vallarins það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Þeir stjórnuðu gangi leiksins en náðu ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri. Það var helst að þeir næðu að ógna marki Fylkis með langskotum og föstum leikatriðum.

Víkingur hélt áfram að þjarma að heimaliðinu í upphafi síðari hálfleiks og voru nálægt því að jafna þegar Kenan Turudja átti skot rétt framhjá eftir skyndisókn. Á 63. mínútu fengu Fylkismenn hins vegar víti þegar Kramar Denis braut á Alvaro Calleja. Arnar Bragi Bergsson steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi og kom Fylki í 2-0.

Virtist sem leikmönnum Víkings væri brugðið og botninn datt úr leiknum næsta korterið eða svo. Þeim fannst illa farið með sig á 76. mínútu þegar dæmd var aukaspyrna fyrir brot á Pape Mamadou Faye en Víkingar heimtuðu víti. Þeir höfðu ef til vill nokkuð til síns máls því brotið virtist hafa átt sér stað töluvert fyrir innan vítateigslínuna. Upphófust þá fjörugar lokamínútur. Christian Liberato varði stórkostlega skot af löngu færi og á 83. mínútu minnkaði Pape muninn fyrir Víking með skoti í teignum eftir fyrirgjöf Alfreðs Más Hjaltalín.

Christian varði aftur glæsilega þegar Fylkismenn sluppu einir í gegn og í uppbótartíma vildu Víkingar aftur víti þegar boltinn fór í hönd varnarmanns. Dómarinn dæmdi hins vegar ekkert og allt ætlaði að verða vitlaust. Þorsteinn Már fékk gula spjaldið og Dzevad Saric, aðstoðarþjálfari Víkings, var sendur upp í stúku. Á lokamínútu uppbótartímans fengu heimamenn hins vegar vítaspyrnu þegar Emir braut á sóknarmanni Fylkis sem var sloppinn einn í gegn. Emir fékk auk þess að líta rauða spjaldið. Arnar Bragi fór aftur á punktinn en að þessu sinni gerði Christian sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna frábærlega alveg út við stöng. En þar við sat og 2-1 sigur Fylkismanna staðreynd. Víkingar sitja því enn 9. sæti deildarinnar með 19 stig, nú tveimur stigum betur en Fylkir sem enn er í fallsæti. Næst leikur Víkingur Ó. fimmtudaginn 15. september þegar liðið fær Víking R. í heimsókn til Ólafsvíkur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir