Hrefna Þuríður Leifsdóttir í baráttunni fyrr í sumar. Hún skoraði eina mark ÍA gegn Val síðastliðinn föstudag. Ljósm. gbh.

Slæm byrjun varð Skagakonum að falli

ÍA mætti Val í Pepsi deild kvenna í kanttspyrnu síðastliðinn föstudag. Leikið var á Hlíðarenda. ÍA var fyrir leikinn á botni deildarinnar. Með sigri hefði liðið hleypt mikilli spennu í fallbaráttuna. En það varð ekki því Valur hafði sigur með tveimur mörkum gegn engu í miklum baráttuleik.

Valskonur byrjuðu af miklum krafti og komust yfir strax á 7. mínútu leiksins þegar Mist Edvardsdóttir lét vaða á markið rétt utan vítateigs. Boltinn söng í netinu og Valur kominn yfir. Aðeins fimm mínútum síðar fengu Valskonur aukaspyrnu rétt innan við miðju. Ásta Vigdís í marki ÍA var ekki nægilega vel staðsett og það nýtti Dóra María Lárusdóttir sér og skoraði annað mark Vals. Staðan því 2-0 eftir aðeins korters leik og róðurinn orðinn þungur fyrir ÍA.

Eftir seinna markið fóru Skagakonur að taka við sér og komast betur inn í leikinn. Besta færi fyrri hálfleiks fengu þær eftir góða sókn þar sem þær komust fimm á móti þremur varnarmönnum. Maren Leósdóttir gaf boltann fyrir á Rachel Owens en skot hennar var beint á markmanninn. Staðan í hálfleik því óbreytt, 2-0 fyrir Val.

Skagakonur komu ákveðnari til síðari hálfleiks. Mikil barátta var í leiknum en færin létu bíða eftir sér. Þegar færin síðan komu voru það Skagakonur sem áttu þau. Megan Dunnigan var nálægt því að minnka muninn eftir rúmlega klukkustundarleik þegar hún sendi boltann í stöngina. Á 69. mínútu fengu Skagakonur síðan aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Jaclyn Pourcel átti fast skot beint á markmann Vals sem kýldi boltann frá en beint á Hrefnu Þuríði Leifsdóttur sem kom honum í netið.

Þrátt fyrir ágæta spilamennsku á köflum síðustu 20 mínútur leiksins tókst ÍA ekki að gera sér mat úr þeim marktækifærum sem þó sköpuðust. Fleiri mörk voru því ekki skoruð í leiknum sem lauk með sigri Vals, 2-1.

Skagakonur eru því enn á botni deildarinnar með átta stig þegar tveir leikir eru eftir af mótinu. Þær eygja þó enn veika von á að bjarga sér frá falli. Fjögur stig eru í næstu tvö lið fyrir ofan og fimm í sjöunda sætið. Þær þurfa því að vinna báða leikina sem eftir eru og treysta á að öðrum liðum fatist flugið. ÍA leikur næst laugardaginn 24. september þegar liðið mætir Breiðabliki í Kópavogi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir