Garðar Gunnlaugsson var óheppinn að skora ekki gegn botnliði Þróttar á sunnudag. Skagamenn töpuðu leiknum með þremur mörkum gegn einu. Ljósm. úr safni.

Skagamenn töpuðu fyrir botnliði Þróttar

 

Skagamenn mættu botnliði Þróttar í Pepsi deild karla í knattspyrnu í gær. Leikið var í Reykjavík. Fyrri leik liðanna snemma sumars lauk með 1-0 sigri Þróttar. Skagamenn náðu ekki að hefna fyrir tapið á sunnudag því aftur vann Þróttur, að þessu sinni með þremur mörkum gegn einu. Heimaliðið hefur nú möguleika á að bjarga sér frá falli en Skagamenn töpuðu mikilvægum stigum í baráttunni um Evrópusæti.

Þróttarar byrjuðu vel en varnarleikur Skagamanna var ekki sannfærandi. Þeim gekk mun betur á hinum enda vallarins, léku vel sín á milli og sköpuðu sér prýðileg marktækifæri. Fyrir vikið var leikurinn mjög opinn og hraður. Bæði lið hefðu getað skorað fyrsta korterið og máttu varnarmenn liðanna hafa sig alla við. Eitthvað varð undan að láta og voru það Þróttarar sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 25. mínútu. Christian Sorensen fékk boltann í teignum, kom sér í skotstöðu og smellti boltanum efst í vinstra hornið. Árni Snær var með fingurgómana á boltanum en náði ekki að verja og Þróttur kominn yfir.

Skagamenn efldust við mótlætið og fengu fjögur stórgóð marktækifæri næstu tíu mínúturnar en öll fóru þau forgörðum. Þróttarar komust síðan aftur inn í leikinn, liðin skiptust á að sækja og bæði hefðu getað bætt við til loka fyrri hálfleiks.

Það sama var uppi á teningnum eftir leikhléið. Skagamenn fengu gott færi strax í upphafi eftir að Garðar Gunnlaugsson fór illa með varnarmann Þróttar. Skot hans fór hins vegar hársbreidd yfir markið. Þróttarar geystust fram í sókn sem endaði með því að Brynjar Jónsson kom boltanum í netið og botnliðið komið með tveggja marka forystu. Virtist markið gefa Þrótturum byr undir báða vængi en Skagamenn fengu mjög gott færi þegar skot Garðars af markteig var meistaralega varið.

Þegar tíu mínútur lifðu leikst fékk Þróttur skyndisókn sem endaði með marki. Dion Acoff stakk varnarmenn ÍA af og æddi fram kantinn. Hann lagði boltann á Vilhjálm Pálmason sem var hinn rólegasti, sendi boltann á Brynjar sem kom á ferðinni og lagði hann í fjærhornið framhjá Árna Snæ í markinu. Staðan 3-0 og sigur Þróttar svo gott sem tryggður. Skagamenn náðu rétt að klóra í bakkann á 87. mínútu með marki Jóns Vilhelms Ákasonar eftir fyrirgjöf Þórðar Þorsteins Þórðarsonar en þar við sat. Lokatölur 3-1, Þrótti í vil.

Skagamenn eru eftir leik sunnudagsins með 28 stig í fimmta sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir liðunum í 2.-4. sæti og eygja enn möguleika á Evrópusæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Næst mæta þeir erkifjendunum í KR fimmtudaginn 15. september á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir