Víkingskonur töpuðu öðru sinni fyrir Grindavík

Víkingur Ó. og Grindavík mættust öðru sinni í átta liða úrslitum úrslitakeppni 1. deildar kvenna í knattspyrnu á miðvikudag. Fyrri leiknum, sem leikinn var í Ólafsvík, lauk með fjögurra marka sigri gestanna og var á brattann að sækja fyrir Víkingskonur fyrir aðra viðureign liðanna. Lokatölur á miðvikudag urðu þær sömu og í fyrri leiknum, Grindavík sigraði með fjórum mörkum gegn engu.

Grindavík komst yfir eftir 17 mínútna leik með marki Marjani Hing-Glover og Lauren Brennan jók forskot heimaliðsins þegar hálftími var liðinn. Hún var síðan aftur á ferðinni á 61. mínútu leiksins þegar hún kom Grindvíkingum í 3-0. Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Helga Guðrún Kristinsdóttir síðan fjórða og síðasta mark leiksins og tryggði Grindvíkingum öruggan 4-0 sigur og sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Grindvíkingar voru sterkara lið vallarins allan leikinn. Áttu hvorki fleiri né færri en 27 marktilraunir, þar af 12 á markið, en Víkingur aðeins tvær.

Þátttöku Víkings Ó. í 1. deild kvenna í knattspyrnu er því lokið að sinni. Þær mega hins vegar vel við una því þetta er aðeins fimmta sumarið frá því fyrst var sent lið til keppni í Íslandsmóti kvenna undir merkjum Víkings Ólafsvíkur. Liðið hefur tekið stöðugum framförum síðan þá og bætt sig ár frá ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir