Hér má sjá tíu af þeim sextán konum sem mættu á kynningarkvöldið. Guðrún Hjaltalín er lengst til hægri í neðri röð.

Skotfimi ekki síður fyrir konur en karla

Í síðustu viku var boðið á konukvöld á æfinga- og keppnissvæði Skotfélags Akraness við rætur Akrafjalls. Þá var konum sérstaklega boðið að mæta og kynna sér skotíþróttina. Guðrún Hjaltalín skipulagði kvöldið og segir hún tilganginn hafa verið að sýna fleirum hversu skemmtileg íþrótt skotfimi er. „Þetta er í fyrsta skipti sem við hóum konum sérstaklega saman,“ segir Guðrún. Hún kveðst hafa verið eina konan sem stundaði t.d. leirdúfuskotfimi reglulega á Akranesi og séð ástæðu til að reyna að fjölga í hópnum og jafna kynjahlutföllin. „Þetta tókst frábærlega hjá okkur á miðvikudaginn. Það mættu 16 konur og þar af helmingurinn frá Akranesi. Nokkrar eru mjög áhugasamar um að hefja æfingar með skotfélaginu. „Allar prófuðu að skjóta. Óvanar fóru í „trapvélina“ og sumar prófuðu að fara á „skeetvöllinn“, en á honum færir skyttan sig á milli átta skotpalla og skýtur á leirdúfur sem skotið er upp af misjafnlega löngu færi.“

Sjálf segist Guðrún hafa byrjað að skjóta árið 2009 og síðan 2011 hafi hún haft delluna fyrir alvöru og hefur verið virk í Skotfélagi Akraness síðan þá. Hún segir þetta skemmtilegt sport og til marks um áhugann segist hún nú eiga tvo bleika riffla. Framundan hjá konum í Skotfélagi Akraness er þátttaka á kvennamóti sem nefnist Skyttan og fram fer í Þorlákshöfn 24. september nk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir