Skagakonur geysast fram völlinn. Ljósm. gbh.

Skagakonur töpuðu fyrir toppliði Stjörnunnar

ÍA mætti Stjörnunni í 15. umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Leikið var á Akranesvelli. Búast mátti við erfiðum leik fyrir Skagakonur þar sem liðin voru á sitt hvorum enda deildarinnar, Stjarnan á toppnum en ÍA á botninum. Lokatölur leiksins voru í takt við stöðu liðanna í deildinni, gestirnir úr Garðabænum sigruðu með þremur mörkum gegn engu.

Stjarnan byrjaði leikinn af krafti og stjórnaði gangi leiksins framan af fyrri hálfleik og voru beittari í öllum sínum sóknaraðgerðum. Skagakonur voru lengur að finna taktinn en komust betur og betur inn í leikinn eftir því sem leið á. Þær komust yfir á 21. mínútu þegar Megan Dunnigan skoraði eftir frábæran undirbúning Catherine Dyngvold.

Upphófst þá mikill baráttukafli í leiknum þar sem hvorugt lið ætlaði að gefa nokkuð eftir. Fleiri mörk voru hins vegar ekki skoruð í fyrri hálfleik og ÍA leiddi því með einu marki í leikhléinu.

Leikmenn Stjörnunnar komu mjög ákveðnir til síðari hálfleiks og jöfnuðu metin strax á annarri mínútu með marki frá Hörpu Þorsteinsdóttur. Skagakonur voru þó hvergi af baki dottnar og fengu prýðileg tækifæri til að taka forystuna á nýjan leik en tókst ekki að nýta færin. Á 65. mínútu átti Stjarnan góða sókn sem endaði með því að Katrín Ásbjörnsdóttir kom boltanum í netið og gestirnir því komnir yfir. Stjörnukonur þéttu vörnina hjá sér og brutu á bak aftur allar tilraunir Skagakvenna til að jafna metin. Gestirnir innsigliðu síðan sigurinn á lokamínútu leiksins með öðru marki Hörpu Þorsteinsdóttur. Lokatölur því 3-1, Stjörnunni í vil.

ÍA er því enn á botninum með átta stig eftir 15 leiki, fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Val á útivelli laugardaginn 10. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir