Hópurinn sem synti Faxaflóasundið.

Faxaflóasund frá Reykjavík til Akraness

Laugardaginn 3. september syntu þrettán krakkar úr Sundfélagi Akraness hið árlega Faxaflóasund. Synt var frá Reykjavík til Akraness, samtals 21 kílómetri og skiptust krakkarnir á að synda. Meðaltími hvers og eins ofan í sjónum er 15 til 30 mínútur og er þá skipt og næsti tekur við. Þegar Langisandur nálgast stökkva allir ofan í og synda í land. Faxaflóasundið er árlegur viðburður og er áheitasund. Krakkarnir voru búnir að safna áheitum, bæði í fyrirtækjum og hjá einstaklingum og eru styrkirnir nýttir í að greiða kostnað við æfingabúðir.

„Faxaflóahafnir sigla með okkur undir góðri stjórn Júlíusar Víðis Guðnasonar en hann var að koma með okkur í ellefta skipti. Björgunarsveitin Brák í Borgarnesi var einnig með í för og sigldu félagar í henni á gúmmíbát við hliðina á krökkunum á meðan þeir voru í sjónum. Óhætt er að segja að krakkarnir hafi staðið sig afar vel. Þau voru dugleg að synda og stemningin á bátnum var góð. Við viljum þakka öllum sem styrktu krakkana, Júlla skipstjóra og björgunarsveitinni úr Borgarnesi fyrir stuðninginn,“ segir Harpa Hrönn Finnbogadóttir hjá Sundfélagi Akraness.

Líkar þetta

Fleiri fréttir