Þrátt fyrir góða tilburði þurfti Birta Guðlaugsdóttir að hirða boltann fjórum sinnum úr netinu. Ljósm. af.

Víkingur Ó. fékk skell í fyrsta leik úrslitakeppninnar

Úrslitakeppni 1. deildar kvenna í knattspyrnu hófst laugardaginn 3. september síðastliðinn. Víkingur Ó. hafnaði sem kunnugt er í þriðja sæti B riðils og mætti því liði Grindvíkinga, sem lauk riðlakeppninni í efsta sæti B riðils. Leikið var á Ólafsvíkurvelli.

Víkingskonur áttu á brattann að sækja stærstan hluta leiksins gegn sterku liði Grindvíkinga. Gestirnir komust yfir á 19. mínútu með marki frá Mirjani Hing-Glover og Sashana Carolyn Campbell bætti við öðru marki aðeins sex mínútum síðar. Á 39. mínútu skoraði Mirjani annað mark sitt og þriðja mark Grindvíkinga og róðurinn orðinn þungur fyrir leikmenn Víkings.

Þeim tókst ekki að minnka muninn í síðari hálfleik heldur voru það Grindvíkingar sem bættu einu marki við. Það gerði Rakel Lind Ragnarsdóttir á 83. mínútu leiksins.

Leiknum lauk með sigri Grindvíkinga með fjórum mörkum gegn engu og Víkingur í erfiðri stöðu fyrir seinni viðureign liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar. Liðin mætast í Grindavík miðvikudaginn 7. september. Ljóst er að erfitt verður fyrir Víking að snúa taflinu við en allt er hægt í fótbolta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir