Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Helena Ólafsdóttir, Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA og fyrir aftan standa núverandi þjálfarar, þau Steindóra Steinsdóttir og Kristinn Guðbrandsson. Ljósm. KFÍA.

Helena tekur við meistaraflokki kvenna hjá ÍA

Helena Ólafsdóttir hefur verið ráðin þjálfari meistaraflokks kvenna fyrir næsta tímabil hjá Knattspyrnufélagi ÍA. Helena mun því taka við liðinu af þeim Kristni Guðbrandssyni og Steindóru Steinsdóttur sem eins og áður hefur verið greint frá munu klára tímabilið með liðið í Pepsi deild. Kristinn og Steindóra munu áfram vera í baklandi meistaraflokks kvenna auk þess að sinna fleiri verkefnum hjá félaginu. Helena Ólafsdóttir hefur víðtæka reynslu af kvennaknattspyrnu. Hún starfaði síðast sem þjálfari hjá FK Fortuna í Álasundi í Noregi. Þar áður þjálfaði hún meistaraflokk hjá FH, Selfoss, KR og Val. Helena þjálfaði einnig A-landslið kvenna 2003-2004. Helena var á sínum tíma sigursæll leikmaður og varð margfaldur Íslandsmeistari með KR á árunum 1993-1999. Hún lék einnig með liði ÍA og varð m.a. bikarmeistari með liðinu árið 1992. Helena lék átta A-landsleiki fyrir Ísland.

Í tilkynningu frá stjórn ÍA kemur einnig fram að gengið hefur verið frá ráðningu aðstoðarþjálfara liðsins, en Aníta Lísa Svansdóttir mun aðstoða Helenu við þjálfunina. Aníta Lísa er fyrrverandi leikmaður ÍA en hún hefur einnig spilað með FH, Val og Selfossi. Þá hefur Aníta Lísa starfað sem þjálfari hjá Val, Stjörnunni og nú síðast hjá FK Fortuna/Aksla í Noregi. Hún mun jafnframt þjálfa 2.fl.kvenna.

„Með ráðningum Helenu og Anítu er það undirstrikað að Knattspyrnufélga ÍA að félagið ætlar sér áfram að vera í fararbroddi á Íslandi í knattspyrnuþjálfun og fræðslu leikmanna hvort sem er í karla- eða kvennaflokkum. Markmið félagsins er að byggja upp öflugt knattspyrnufólk og að vinna titla auk þess að vera mikilvægur hlekkur í uppeldis- og æskulýðsstarfi á Akranesi,“ segir í tilkynningu frá KFÍA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir