Catherine Dyngvold fékk tækifæri til að jafna metin þegar ÍA fékk vítaspyrnu snemma síðari hálfleiks. Skot hennar small hins vegar í stönginni og þaðan aftur fyrir endamörk. Ljósm. gbh.

Skagakonur óheppnar að ná ekki stigi

ÍA mætti ÍBV í 14. umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Leikurinn var Skagakonum mikilvægur því með sigri gátu þær lyft sér upp úr fallsæti. Það átti hins vegar ekki fyrir þeim að liggja því Eyjakonur sigruðu með einu marki gegn engu í miklum baráttuleik.

Skagakonur byrjuðu af krafti og sköpuðu sér nokkur ágæt marktækifæri en tókst ekki að koma knettinum í netið. ÍA var betra lið vallarins framan af fyrri hálfleik en gestirnir frá Vestmannaeyjum komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á. Hart var barist og ljóst að hvorugt lið ætlaði sér að gefa eftir. Litlu mátti muna að ÍBV kæmi boltanum í markið eftir mikinn atgang í teignum. Ásta Vigdís varði hins vegar tvisvar í markinu og vörnin komst fyrir þriðja skotið. Rétt fyrir leikhléið tóku Skagakonur síðan aukaspyrnu og boltinn barst á Grétu Stefánsdóttur sem var í ákjósanlegri stöðu en markvörður ÍBV varði vel. Staðan því markalaus í hálfleik.

Leikmenn ÍBV fengu sannkallaða óskabyrjun í síðari hálfleik og komust yfir strax á 46. mínútu þegar Cloe Lacasse kom boltanum í netið. Aðeins þremur mínútum síðar fengu Skagakonur hins vegar gullið tækifæri til að jafna. Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu eftir samstuð í teignum. Catherine Dyngvold steig á punktinn en skot hennar small í stönginni og fór þaðan aftur fyrir endamörk. Óheppnin virtist það aðeins slá Skagakonur út af laginu og leikur þeirra var heldur kaflaskiptur fyrst á eftir. Eftir því sem leið á leikinn færði ÍBV liðið sig aftar á völlinn, þétti vörnina og beitti skyndisóknum.

Þrátt fyrir ágæta baráttu allt til leiksloka tókst leikmönnum ÍA ekki að jafna metin né ÍBV að auka muninn og gestirnir höfðu því 1-0 sigur. Eftir leiki miðvikudagsins datt ÍA niður á botn deildarinnar með átta stig eftir 14 leiki. Þær eygja þó enn möguleika á því að lyfta sér upp úr fallsæti, því aðeins tvö stig eru í lið Selfyssinga í 8. sæti deildarinnar. Næst mætir ÍA toppliði Stjörnunnar þriðjudaginn 6. september næstkomandi.

Líkar þetta

Tengdar fréttir

Fleiri fréttir