Gunnar og Guðmundur Orri óku á Ford Focus. Hér eru þeir við Djúpavatn. Þeir frændur sýndu mikla þrautseigju í keppninni. Ljósm. gjg.

Aðalsteini og Sigurði dugar fimmta sæti í síðasta rallýi ársins

Rallý Reykjavík, þriggja daga alþjóðleg keppni og jafnframt fjórða umferð á Íslandsmótinu í rallý, fór fram 25. – 27. ágúst sl. Ekið var víðs vegar um Suður- og Vesturland, m.a. um Kaldadal og Tröllháls, Djúpavatn og í nágrenni Heklu. Eknir voru alls yfir þúsund kílómetrar og þar af rúmlega 300 km á sérleiðum. Tuttugu áhafnir hófu keppni seinnipart fimmtudags, spenningur var mikill og líklegt að hart yrði barist um verðlaunasætin enda margir fyrrverandi og núverandi Íslandsmeistarar meðal þátttakenda. Rallý snýst ekki eingöngu um að aka hratt heldur er skynsemi og yfirvegun ásamt góðum undirbúningi áhafna gríðarlega mikilvægur, m.a. hvað varðar ástand keppnisbifreiða. Strax á fimmtudag fór að bera á bilunum í sumum bifreiðum og fór svo að einungis 15 áhafnir luku keppni á laugardag.

Daníel og Ásta Sigurðarbörn á Subaru stóðu uppi sem sigurvegarar með tæplega 8 mín. forskot á þá Sigurð Braga Guðmundsson og Borgnesinginn Aðalstein Símonarson á MMC Evo 7 sem óku öruggt í annað sætið. Þeir Sigurður Bragi og Aðalsteinn leiða nú Íslandsmótið með gott forskot á Daníel og Ástu. Þar sem aðeins ein umferð er eftir nægir þeim fimmta sætið í síðustu keppninni til að tryggja sér titilinn.

Mikil barátta var alla keppnina um þriðja sætið en allt fram að næst síðustu sérleið leit út fyrir að Eyjólfur Melsteð og Heimir Snær Jónsson yrðu í þriðja sæti eftir gríðarlega góðan akstur alla keppnina. Þeir urðu hins vegar fyrir því óhappi að vélin gaf sig í Cherokee jeppa þeirra þegar einungis um 25 sérleiðakílómetrar voru eftir og féllu þeir þar með úr keppni. Eftirleikurinn var því auðveldur hjá Marian Sigurðsyni og Ísak Guðjónsyni en þeir höfðu með góðum akstri á laugardeginum saxað jafnt og þétt á forskot þeirra Eyjólfs og Heimis.

Biluð vél þeirra Eyjólfs og Heimis hafði einnig gríðarleg áhrif á sætaröðun í jeppaflokki en þeir voru nær öruggir með sigur í þeim flokki fyrir síðustu sérleiðina. Guðmundur Snorri Sigurðsson og Magnús Þórðarson stóðu hins vegar uppi sem sigurvegarar og tryggðu sér um leið íslandsmeistaratitilinn. Í öðru sæti urðu Vestlendingurinn Þorkell Símonarson og Þórarinn K. Þórsson.

Akurnesingurinn Gunnar Freyr Hafsteinsson er þaulreyndur rallökumaður sem þó hefur lítið keppt undanfarin ár. Hann mætti til leiks ásamt bróðursyni sínum, Guðmundi Orri Arnarsyni, en þeir óku á framdrifnum Ford Focus. Þrautseigja þeirra ásamt góðu viðgerðarliði skilaði þeim af harðfylgi í endamark á laugardag en ýmislegt gaf sig í bifreið þeirra á þessum þremur dögum. Verður það að teljast góður árangur þar sem akstursleiðir voru ekki alltaf heppilegar fyrir svo smáa og afllitla bifreið eins Focus í raun er.

Mikið gekk á í keppninni en allt hafðist þetta þótt fimm áhafnir næðu ekki að ljúka keppni. Aðalsteinn og Sigurður Bragi juku forskot sitt, Keli vert kláraði og Akurnesingarnir líka þrátt fyrir mikil skakkaföll. Hér eru þeir Alli og Siggi við Hvaleyrarvatn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir