FH-ingar fagna markinu umdeilda en Víkingar mótmæla. Erfitt var að sjá hvort boltinn fór yfir línuna en dómari leiksins fylgdi merki línuvarðarins og markið stendur. Ljósm. af.

Víkingur tapaði fyrir toppliði FH

Víkingur Ólafsvík mætti FH í 17. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á Ólafsvíkurvelli í gær. Víkingur hefur átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið eftir frábæra byrjun í mótinu en FH trónir sem kunnugt er á toppi deildarinnar og stefnir hraðbyri að Íslandsmeistaratitlinum.

Leikurinn fór fremur hægt af stað. FH-ingar voru meira með boltann og létu hann ganga á milli sín en Víkingar biðu átekta. Fyrsta alvöru færi leiksins kom ekki fyrr en á 30. mínútu og það var gestanna. Varnarmenn Víkinga virtust hafa gleymt sér og Atli Guðnason fékk boltann óvaldaður á fjærstöng en skaut beint á markið og Christian Liberato varði auðveldlega.

Gestirnir úr Hafnarfirði voru áfram sprækari og komust yfir á 42. mínútu. Jonathan Hendrickx tók hornspyrnu sem sveif alla leið á fjærstöng þar sem Atli Viðar Björnsson var einn á auðum sjó og átti ekki í vandræðum með að koma boltanum á netið. Gestirnir fóru því með eins marks forystu inn í leikhléið.

Leikmenn Víkings mættu ákveðnir til síðari hálfleiks, beittu löngum sendingum og reyndu að jafna metin. Hrvoje Tokic átti skemmtilega tilraun þegar hann tók boltann viðstöðulaust eftir háa sendingu fram völlinn en skot hans rétt yfir markið. Það voru hins vegar FH-ingar sem bættu við marki á 62. mínútu og aftur var það eftir hornspyrnu. Hendricks spyrnti og Hafnfirðingar fjölmenntu í markteig Víkinga. Eftir mikinn atgang á fjærstöng kom Emil Pálsson boltanum í átt að marki. Liberato greip boltann og hljóp með hann frá markinu en línuvörðurinn lyfti hins vegar flaggi sínu til marks um að boltinn hafi farið yfir línuna. Dómari leiksins dæmdi markið því gott og gilt en Víkingar allt annað en sáttir.

Víkingar gerðu hvað þeir gátu og voru nálægt því að komast í dauðafæri þegar 20 mínútur lifðu leiks. Þorsteinn Már vann boltann af miklu harðfylgi og hann og Tokic voru komnir tveir á móti einum við miðlínu vallarins. Sending Þorsteins misheppnaðist hins vegar og fór beint í varnarmann FH-inga.

Víkingar komust ekki lengra og náðu ekki að minnka muninn, alltaf vantaði herslumuninn upp á sóknaraðgerðir þeirra. Úrslit leiksins því tveggja marka sigur FH. Víkingar sitja nú í 9. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 17 leiki, einu stigi á undan næsta liði og fimm stigum fyrir ofan fallsæti. Þar situr Fylkir sem er einmitt næsti mótherji Víkinga. Liðin mætast á Fylkisvelli sunnudaginn 11. september næstkomandi í gríðarlega mikilvægum leik.

Líkar þetta

Fleiri fréttir