Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði annað mark Skagamanna í leiknum gegn Víkingi R. Var það hans fyrsta mark fyrir ÍA í efstu deild. Ljósm. gbh

Öruggur sigur Skagamanna

ÍA tók á móti Víkingi R. í 17. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í gær. Skagamenn voru betra lið vallarins allan leikinn og unnu að lokum sigur með tveimur mörkum gegn engu.

Fyrsta mark leiksins kom strax á fjórðu mínútu leiksins. Skagamenn pressuðu Víkinga hátt og unnu boltann ofarlega á vellinum. Þórður Þorsteinn Þórðarson sendi fallega fyrirgjöf utan af kanti beint á kollinn á Garðari Gunnlaugssyni sem var einn og óvaldaður á fjærstönginni og átti ekki í vandræðum með að skora.

Víkingar fóru beint í sókn eftir markið og hugðust svara strax. Þeir fengu ágætt færi en Ármann Smári lokaði vel á skotið og bægði hættunni frá. Skömmu síðar var Albert Hafsteinsson nálægt því að auka forystu Skagamanna. Hann fékk góða sendingu frá Halli Flosasyni utan af kanti en skallaði boltann í þverslána.

Skagamenn voru mun sterkari það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en leikmenn Víkings virtust áhugalausir. Engan þurfti því að furða að næsta mark var Skagamanna. Ármann Smári tók aukaspyrnu fyrir aftan miðju og sendi boltann inn í teig Víkinga. Garðar tók boltann niður og lagði hann út á Tryggva Hrafn Haraldsson sem þrumaði honum viðstöðulaust í hornið niðri. Var það hans fyrsta mark fyrir ÍA í efstu deild.

Síðari hálfleikur var fremur bragðdaufur framan af. Skagamenn stjórnuðu gangi mála og Víkingar virtust ekki líklegir til neinna afreka. Besta færi síðari hálfleiks fengu Skagamenn á 71. mínútu. Skagamenn unnu boltann við eigin vítateig. Tryggvi Hrafn geystist af stað með knöttinn, fór framhjá hverjum Víkingsmanni á fætur öðrum og lét vaða frá vítateigsjaðrinum en skotið fór hársbreidd framhjá. Glæsilegur sprettur og Tryggvi óheppinn að skora ekki.

Úrslitin sem fyrr segir 2-0 sigur Skagamanna. Þeir hafa nú unnið átta af síðustu tíu leikjum sínum og sitja í 5. sæti deildarinnar með 28 stig eftir 17 leiki. Næst mæta þeir botnlið Þróttar sunnudaginn 11. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira