Skagakonur töpuðu í mikilvægum fallbaráttuslag

Í kvöld kláraðist þrettánda umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu. Skagakonur léku gegn Fylki á Akranesvelli í mikilvægum fallbaráttuslag. Aðeins tveimur stigum munaði á liðunum fyrir leikinn; Fylkir var í sjöunda sæti með tíu stig og ÍA í því níunda með átta stig. Það var því mikið undir hjá Skagakonum sem hefðu með sigri getað lyft sér upp úr fallsæti. Leiknum lauk þó með sigri Fylkis með einu marki gegn engu og færist Fylkir þar með fjær botninum. Skagakonur eru enn í baráttunni um að halda sæti sínu í deildinni því þrátt fyrir tapið eru þær enn aðeins tveimur stigum frá liði Selfoss sem er í áttunda sæti.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Ekki var mikið um færi og voru bæði lið þétt til baka og beittu háum boltum fram á við, þau virtust ekki ætla að gefa færi á sér. Besta færi hálfleiksins kom eftir 36 mínútna leik. Skagakonur fengu þá aukaspyrnu út á hægri kanti. Aukaspyrnan var virkilega góð og Megan Dunnigan náði fínum skalla sem fór rétt yfir markið. Leikurinn var markalaus þegar dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Skagakonur komu grimmari inn í síðari hálfleikinn og náðu að skapa sér nokkur góð færi. Á 49. mínútu skoraði Megan fyrir Skagakonur en markið var dæmt af vegna rangstöðu og voru Skagakonur alls ekki sáttar við þann dóm.

Skagakonur héldu áfram að sækja að marki Fylkis en náðu ekki að skora. Það var Eva Núra Abrahamsdóttir sem skoraði fyrsta og eina mark leiksins á 76. mínútu. Eva fékk boltann rétt fyrir framan miðjubogann á vallarhelmingi ÍA. Hættan virtist lítil en Eva sá að Ásta í marki ÍA stóð framarlega og vippaði boltanum af þrjátíu metra færi yfir Ástu.

Eftir markið náðu Skagakonur ekki að skapa sér mikið og landaði Fylkir því þremur mikilvægum stigum. ÍA leikur næsta leik miðvikudaginn 31. ágúst gegn ÍBV á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira